Home Fréttir Í fréttum Vilja samgöngubætur með sameiningu á Vestfjörðum

Vilja samgöngubætur með sameiningu á Vestfjörðum

58
0
Þórdís Sif Sigurðardóttir er bæjarstjóri Vesturbyggðar. EGILL AÐALSTEINSSON

Íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðar kjósa um sameiningu í næsta mánuði og reynir þá í fyrsta sinn á ný ákvæði um íbúakosningar, þess efnis að þær séu bindandi og standi í tvær vikur hið minnsta. Sveitarfélögin nýta tilefnið til að þrýsta á tvenn jarðgöng.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um fyrirhugaðar sameiningarkosningar. Venjulega hefur í kosningum hérlendis aðeins verið einn kjördagur en þegar íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðar ganga að kjörborðinu núna í október verður í fyrsta sinn kosið samkvæmt nýju fyrirkomulagi um íbúakosningar. Þannig skal atkvæðagreiðsla vara í minnst tvær vikur en mest fjórar. Og niðurstaðan verður bindandi.

Frá Patreksfirði.
EGILL AÐALSTEINSSON

„Já, það verða íbúakosningar frá 9. til 28. október. Þetta er sem sagt samkvæmt nýjum reglum og reglugerð um íbúakosningar,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

En hvað mun sameining þýða fyrir byggðirnar?

„Sterkari rödd bara samfélagsins hérna. Minni stjórnsýsla. Sterkara sveitarfélag til að takast á við þau verkefni sem við þurfum öll að takast á við. Það er náttúrlega mjög breytt umhverfi sveitarfélaga undanfarin ár. Þannig að ég held að þetta sé bara gott fyrir okkur sem sunnanverða Vestfirði að fara þessa leið,“ svarar bæjarstjórinn.

Frá Tálknafirði.
VILHELM GUNNARSSON

Það er orðin lenska við sameiningu sveitarfélaga hérlendis að spyrða kröfur um samgöngubætur við. Hér vilja menn göng og ekki bara ein heldur tvenn.

„Þetta er náttúrlega eitt af því sem skiptir miklu máli, bæði fyrir íbúana og fyrirtækin, að samgöngur séu góðar á svæðinu,“ segir Þórdís Sif.

Miklar endurbætur standa nú yfir á veginum um Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Ráðamenn sveitarfélaganna telja hins vegar lykilatriði að fá jarðgöng þar á milli sem og undir Hálfdán, heiðina milli Tálknafjarðar og Bíldudals.

Frá Bíldudal.
VILHELM GUNNARSSON

„Þannig að það er bara gríðarlega mikið sem þarf að gera í vegasamgöngum hérna á milli. Svo eru þetta líka fjallvegir og fjölfarnasti fjallvegur Vestfjarða er hérna á milli.

Fólk líka hættir sér ekkert endilega á að keyra þarna á milli. Það eru margir sem veigra sér við að fara hérna á milli að vetri til,“ segir bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Heimild: Visir.is