Home Fréttir Í fréttum Bylting í meðhöndlun á stáli byggir á leyniefni

Bylting í meðhöndlun á stáli byggir á leyniefni

108
0
Vinna er í fullum gangi við byggingu 300 fermetra húss yfir ViwateQ-búnaðinn á athafnasvæði Héðins við Gjáhellu í Hafnarfirði. Mynd/Aðsend

Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins, segir fyrirtækið fljótlega geta beitt byltingarkenndri tækni frá hollenska fyrirtækinu ViwateQ til að meðhöndla ryðfrítt stál þannig að það verði sléttara en aðrar aðferðir hafa getað skilað hingað til.

<>

Nú standa yfir framkvæmdir við þrjú hundruð fermetra hús undir byltingarkenndan tæknibúnað við meðhöndlun á ryðfríu stáli á athafnasvæði Héðins við Gjáhellu í Hafnarfirði. Um er að ræða einkaleyfisvarða tækni frá hollenska fyrirtækinu ViwateQ.

Héðinn verður eina fyrirtækið hér á landi með aðgang að tækninni og leigir búnað frá ViwateQ. Tæknin á að skila stálinu með miklu minni hrjúfleika en áður hefur þekkst og þar með er það síður til þess fallið að hýsa bakteríur.

„Þetta er með minni hrjúfleika heldur en rafpólering sem talin hefur verið best,“ segir Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins.

Fjarlægja öll ummerki
Húsið og annar grunnbúnaður í það, þar á meðal kónískt gólf með ristum undir tækin að utan, mun að sögn Rögnvalds kosta um 200 milljónir króna. „Við gerum langtíma leigusamning við ViwateQ þannig að fjárbindingin þar er ekki svo stór í upphafi,“ bætir hann við.

Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins Mynd Aðsend

Til samanburðar nefnir Rögnvaldur að við sýrumeðferð sé yfirleitt ekki allt stykkið meðhöndlað heldur aðeins suðusvæðin. Með ViwateQ-aðferðinni hins vegar séu öll ummerki um suðu og aðrar ójöfnur fjarlægð og eftir standi rennislétt yfirborð. „Hrjúfleiki yfirborðs stálsins er miklu minni en með hefðbundinni sýrumeðferð eða glerblæstri og minni en við rafpólun,“ ítrekar Rögnvaldur.

Varðandi eftirspurn eftir hinni nýju tækni segir Rögnvaldur að verkefnastaða Héðins hjá sínum viðskiptavinum sé ágæt.

Lykilefnið er leyndarmál
„Við höfum ekkert farið að herja á aðra, en þegar þetta fer að rúlla af stað förum við að kanna þann markað. Hann er klárlega til staðar vegna þess hvernig frágangurinn á efninu er eftir þessa meðhöndlun,“ segir Rögnvaldur. ViwateQ-tæknin ætti að höfða sérstaklega til matvæla- og lyfjaiðnaðarins.

Um tæknina sjálfa segir Rögnvaldur um að ræða sambland af vatni og sandi auk efnis sem komi að utan frá hollenska fyrirtækinu og hann kalli Blackbox.

„Þetta er einkaleyfisvarið og við vitum eiginlega ekki hvaða efni þetta er,“ segir Rögnvaldur. Efnið hafi engin umhverfisáhrif líkt og sýran. „Við fáum tækin á leigu og síðan fáum við Blackbox að utan í þau eftir þörfum.“

Reiknað er með að byggingu nýja hússins verði lokið um miðjan nóvember og starfsemin fari í gang í desember þegar tækin hafa verið sett upp.

Heimild: Vb.is