Jarðgöngin eru hluti af veginum frá Húsavíkurhöfn að iðnaðarlóðinni á Bakka og verða tæplega kílómetri að lengd. Sérstaða þeirra er meðal annars annars sú að Húsavíkurhöfði er eingöngu gerður úr setbergi. Aldrei fyrr hafa heil göng sem ætluð eru bílaumferð verið grafin í gegnum setberg hér á landi. Það á aðeins við um nokkur styttri virkjanagöng.
Gert ráð fyrir meiri styrkingum
„Þetta er jú aðeins laust í sér og þess vegna er gert ráð fyrir heldur meiri styrkingum, heldur þykkari sprautusteypu til þess að loka þetta nú vel inni,“ segir Gísli Eiríksson, verkfærðingur og yfirmaður jarðganga hjá Vegagerðinni.
Öðruvísi setberg en í öðrum göngum
Setbergið í Höfðanum sé þó ekki sambærilegt við setlög sem þekkjast og valdið hafa vandræðum við gangagerð. Nú síðast í Norðfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum. „Það er allt öðruvísi setberg. Það er gert úr ösku aðallega, eða gjalli sem er loftborið og í þeim er miklu meira af fínefnum og jafnvel leirsteindir. Þannig að það þolir lítið álag og molnar í sundur,“ segir Gísli. Setbergið í Húsavíkurhöfða sé tiltölulega þétt völuberg, lagskipt samþjöppuð jökulurð og ekki líklegt til að vanda vandræðum. „Þetta er, miðað við reynsluna, talið alveg sæmilegt gangaberg og sömu aðferðir notaðar.“
Jarðskjálftahætta kallar einnig á meiri styrkingar
Húsavíkurgöng eru á virku jarðskjálftasvæði, stutt undir yfirborði, á aðeins um 25 metra dýpi. Því segir Gísli alveg á mörkunum að jarðskjálftar geti haft áhrif á göngin. „Og talið er að þeir geti haft það að hluta til. Og það valdur því líka að styrkingar eru aðeins auknar frá því sem við erum mest vanir.“
Heimild: Rúv.is