Home Fréttir Í fréttum Uppbygging á inniaðstöðu Golfklúbbs Akureyrar og nýtt hótel á svæðinu

Uppbygging á inniaðstöðu Golfklúbbs Akureyrar og nýtt hótel á svæðinu

47
0
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Bjarni Þórhallsson, formaður GA, undirrituðu samninginn.

Þann 8 september sl.  var undirritaður samningur milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar um uppbyggingu á inniaðstöðu fyrir Golfklúbb Akureyrar í nýju húsi vestan við núverandi klúbbhús á Jaðri, afmörkun lóðar fyrir nýtt hótel á svæði suðaustan við núverandi klúbbhús og afmörkun á svæði fyrir stækkun íbúðarsvæðis meðfram Kjarnagötu.

<>

Gert er ráð fyrir uppbyggingu á um 600 fm inniaðstöðu að grunnfleti vestanmegin við núverandi golfskála, ásamt kjallara. Með þessu móti má færa alla starfsemi GA á einn stað.

Þetta mun styrkja félagsstarf GA til muna og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Akureyrarbær styrkir uppbygginguna með árlegu fjárframlagi árin 2024 til 2028. Akureyrarbæjar leggur til verksins samtals 180 milljóna króna vísitölutryggt framlag.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Jaðarsvöll frá 2011 er afmarkaður byggingarreitur fyrir hótel suðaustan við núverandi klúbbhús golfvallarins. Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að hótelið tengist klúbbhúsinu og er ekki afmörkuð sér lóð fyrir hótelið.

Talið er að bygging hótels á golfvellinum geti styrkt svæðið sem heilsársútivistarsvæði enda liggur hann upp að útivistarsvæði bæjarins í Naustaborgum og Kjarnaskógi. Með byggingu hótels gefst tækifæri til að styrkja rekstur GA allt árið um kring með aukinni nýtingu bæði golfvallar og inniaðstöðu auk þess að efla almenna ferðaþjónustu á Akureyri.

Fyrir liggur að golfklúbburinn mun ekki standa fyrir byggingu hótels og þess vegna er nauðsynlegt að afmarka sérstaka lóð fyrir hótelið. Er miðað við að lóðin verði ekki lengur hluti af því svæði sem lóðarleigusamningur Golfklúbbs Akureyrar nær til heldur mun Akureyrarbær fá lóðina til úthlutunar.

Gert er ráð fyrir að byggingarréttur lóðarinnar verði seldur og þannig fáist tekjur sem koma til móts við framlag Akureyrarbæjar til uppbyggingar inniaðstöðu fyrir GA. Miðað er við að lóðin verði um 3.000 fm að stærð og að þar megi byggja allt að 150 herbergja hótel.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2011 var gert ráð fyrir að golfvöllurinn myndi stækka til austurs og ná alveg að Kjarnagötu.

Ekki hefur orðið af þeirri stækkun og þar sem ekki eru upp áform um að breyta golfvellinum á þessu svæði fellur það svæði aftur til Akureyrarbæjar.

Svæðið sem um ræðir er 1,3-1,5 ha og er miðað við að hluti þess geti verið nýtt sem íbúðarsvæði.

Hlekkur á samninginn: 

Heimild: Akureyri.is