„Ég vil auðvitað fá skýringar,“ segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Í skýrslu um fyrirhugaða sameiningu MA og VMA sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti í vikunni var óvænt tilkynnt í framhjáhlaupi að áform um endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík hefðu verið lögð til hliðar.
Hefur Sólveig fengið afsökunarbeiðni frá ráðuneytinu og henni tjáð að mistök hafi verið gerð með því að greina frá þessu í umræddri skýrslu. Eftir sem áður stendur ákvörðun um að salta áformin, þó að engin formleg ákvörðun hafi verið tekin.
Skólayfirvöld í MR hafa lengi barist fyrir endurbótum á húsnæði skólans og voru þau loks komin á fjárlög síðasta haust. „Það er löngu orðið tímabært að nemendur í MR fái þá lágmarksaðstöðu sem aðrir nemendur í framhaldsskólum hafa,“ segir Sólveig.
Heimild: Mbl.is