Hækkun á kostnaðaráætlun samgöngusáttmálans má skýra með því að verkefni tengd honum hafi verið komin stutt á veg þegar hann var undirritaður fyrir fjórum árum. Kostnaðaráætlanir séu því háðar mikilli óvissu.
Vegagerðin segir að skýra megi hækkun á kostnaðaráætlun samgöngusáttmálans með því að verkefni hans hafi verið stutt á veg komin við undirritun árið 2019 og þroski áætlana eftir því. Mörg verkefni hafi aukist að umfangi frá fyrstu stigum og kostnaður aukist eftir því.
Flest verkefni sáttmálans séu raunar enn á skipulagsstigi þar sem ekki hafi verið teknar ákvarðanir umj leiðarval og útfærslur. Kostnaðaráætlanir séu því háðar mikilli óvissu.
Kostnaðartölur byggðar á úreldum áætlunum
Þau verkefni sáttmálans sem komin voru lengra í þróun og hönnun við undirritun og hafa nú þegar verið framkvæmd hafa staðist áætlanir mjög vel. Þá hafi ýmsar kostnaðartölur í sáttmálanum verið byggðar á eldri áætlunum sem höfðu ekki verið uppfærðar í langan tíma og forsendur breyttar.
Þetta eigi til dæmis við Sæbrautarstokkinn sem í áætluninni hafi verið kostnaðarmetin sem mislæg gatnamót en eigi nú að verða 850 metra langur stokkur. Þá hafi kostnaðaráætlanir við borgarlínu í fyrstu verið byggðar á skilgreiningu því ekki hafi verið búið að hanna eða útfæra götusniðin og því mikil óvissa í áætlunum.
Mikil óvissa var í áætlunum um borgarlínu þegar sáttmálinn var undirritaður. Hvorki var búið að hanna né útfæra götusnið borgarlínurnar. Hugmyndir sem nú eru uppi um útfærslu Borgarlínunnar eru umfangsmeiri en þær hugmyndir sem lagt var af stað með í upphafi.
Heimild: Ruv.is