Stefnt að opnun nýrrar líkamsræktarstöðvar, 120 herbergja heilsuhótels og veitingastaðar á Fitjum í Njarðvík fyrir árslok 2026. Reykjanesbær skipti á lóðum við World Class.
Framkvæmdir ættu að geta hafist eftir eitt ár.
Framkvæmdir við niðurrif á gömlu Steypustöðinni á Fitjum í Njarðvík hefjast á næstunni en það er hluti samkomulags milli Reykjanesbæjar og World Class sem skiptu á lóðum.
Nýja lóðin sem World Class fékk í skiptunum, mun hýsa líkamsræktarstöð, heilsuhótel og veitingastað. Fyrir utan verður risastórt baðlón, heitir pottar og gufur og í fjörunni munu verða heitir pottar fyrir þá sem vilja stunda sjósund. Stefnt er á að framkvæmdir hefjist eftir eitt ár og þeim verði lokið fyrir árslok 2026.
World Class opnaði fyrstu stöð sína í Skeifunni í Reykjavík árið 1985 og er í dag með átján stöðvar víðsvegar um landið, sú stærsta er Laugar í Laugardalnum. Björn Leifsson er einn aðal eigenda World class, hann fór yfir hvernig áhugi hans á Reykjanesbæ kom til og hvernig verkefnið er statt í dag.
„Fyrir fjórum árum var mér bent á svæðið þar sem húsnæði gömlu steypustöðvarinnar er í dag í Njarðvík. Ég fór að skoða málið og úr varð að ég tók þátt í söluútboði og varð hlutskarpastur en Reykjanesbær gerði mér tilboð og bauð mér aðra lóð gegn því að ég myndi rífa gömlu Steypustöðina niður.
Þar á að rísa fallegt útivistarsvæði en lóðin sem mér bauðst í staðinn hentar miklu betur fyrir það sem ég vil gera. Þarna mun rísa tíu þúsund fermetra húsnæði sem verður í senn World Class-stöð, 120 herbergja heilsuhótel og veitingastaður.
Fyrir utan verður 2400 fermetra baðlón, útisturtur, heitir pottar, gufur og auk þess verða heitir pottar í fjörunni sem eru m.a. hugsaðir fyrir þá sem vilja stunda sjósund.
Framkvæmdir hefjast fljótlega
Verkefnið er statt þannig í dag að ég er búinn að semja við verktaka um að rífa gömlu steypustöðina og ættu framkvæmdir að geta hafist fljótlega. Það eru tæp þrjú ár síðan ég skrifaði undir kauptilboðið en síðan þá hefur málið verið að velkjast um í skipulagsmálum Reykjanesbæjar, deiliskipulagið passaði ekki inn í aðalskipulagið svo þetta fór fram og til baka og var langt ferli en nú sér fyrir endann á því.
Þá get ég loksins farið að láta hanna bygginguna. Það mun taka u.þ.b. ár svo framkvæmdir ættu að geta hafist næsta haust og m.v. forsendurnar í dag ættu þær að taka um tvö ár. Því ætti að vera hægt að opna fyrir árslok 2026.“
Nálægð við alþjóðaflugvöll
Nálægðin við flugvöllinn og það að þetta er miðsvæðis í Reykjanesbæ er aðalástæða þessarar framkvæmdar sem mun skapa fjölda starfa.
„Þetta er mjög spennandi dæmi, ég man hvað ég var spenntur á sínum tíma þegar við byggðum Laugar en þetta er mun stærra. Það er nálægðin við alþjóðaflugvöll sem ég horfi mest til, það er mikið af farþegum sem eru að stoppa í nokkrar klukkustundir á milli flugferða og geta þá skotist á fimm mínútum í ræktina eða í baðlónið. Útsýnið á þessum stað yfir voginn og út á sjó er stórfenglegt og þarna er eitt stærsta fuglaskoðunarsvæði á Íslandi.
Fólk af höfuðborgarsvæðinu á eftir að gera sér ferð suður með sjó og fara í ræktina eða baða sig og kaupa aðra þjónustu í Reykjanesbæ. Ég geri ráð fyrir að þessi starfsemi muni skapa 60-80 störf, ég hlakka mikið til samstarfsins við Suðurnesin,“ sagði Björn að lokum.
Heimild: Vf.is