Home Fréttir Í fréttum Reif gegn vegaframkvæmdum í Berlín

Reif gegn vegaframkvæmdum í Berlín

76
0
Eigendur skemmtistaða voru meðal þeirra sem efndu til mótmæla gegn lengingu A100 brautarinnar. EPA-EFE – Hannibal Hanschke

Nýjum vegarkafla A100 hraðbrautarinnar var mótmælt í gær. Mótmælendur efndu til allsherjar skemmtunar með öllu tilheyrandi en til stendur að rífa fjölda skemmtistaða til að lengja A100 brautina.

<>

Um eins kílómetra löngum vegakafla í Berlín var breytt í dansgólf í gær til að mótmæla vegaframkvæmdum.

Eigendur næturklúbba, umhverfissinnar og borgarbúar mótmæltu í hverfi í austurhluta borgarinnar gegn lengingu A100 hraðbrautarinnar sem til stendur að liggi þar í gegn.

Brautin samanstendur af sex akreinum og því stendur til að rífa hús í hverfinu, þar með talin íbúðarhús en líka um tuttugu skemmtistaði og aðra staði sem tengjast menningarlífi nágrennisins.

Reykvélar og diskókúlur voru meðal þess sem mótmælendur höfðu til taks við mótmæli gærdagsins. Þá voru plötusnúðar einnig á staðnum ásamt drykkjarvögnum.

Nú stendur yfir sextándi áfangi í byggingu A100 brautarinnar og var þeim sautjánda mótmælt í gær. Vegakaflinn sem um ræðir mun liggja við mörk hverfanna Kreuzberg og Friedrichshain. Áformin hafa legið fyrir í árátug og er markmiðið að stækka svokallaðan „borgarhring“.

Framkvæmdir við brautina hófust fyrir fall Berlínarmúrsins. Áform síðustu áratugina hafa beinst að því að tengja umferð um borgina betur saman og auðvelda för milli borgarhluta.

Skiptar skoðanir á áhrifum A100
Mótmælin endurspegla hugmyndafræðilegan ágreining um bílaumferð í Berlín.

Samgönguráðherra Þýskalands og borgarstjóri Berlínar eru þeirrar skoðunar að brautin muni létta á umferðarþunga innan borgarinnar.

Mótmælendur telja að lenging brautarinnar leiði aðeins til þess að umferð í borginni aukist. Því fjármagni sem áætlað hafi verið í framkvæmd brautarinnar sé betur varið í almenningssamgöngur, hjólastíga og viðhald gagnstétta.

Heimild: Ruv.is