Home Fréttir Í fréttum Snjóflóðavarnir í Neskaupstað boðnar út í haust

Snjóflóðavarnir í Neskaupstað boðnar út í haust

89
0
Mynd: Landmótun

Fjármagn hefur verið tryggt þannig að hægt verði að bjóða upp framhald snjóflóðavarna ofan Neskaupstaðar í haust og hefja framkvæmdir á næsta ári. Frumvarp verður lagt fram á komandi Alþingi um varnir atvinnusvæða sem eru í hættu gagnvart ofanflóðum.

<>

Þetta var tilkynnt á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Egilsstöðum í vikunni.

„Það er mjög gaman að koma hingað og segja frá því að við erum að flýta framkvæmdum á Norðfirði, eins og beðið hefur verið um. Við erum með 600 milljónir sem gera það að verkum að við getum boðið út núna strax,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fundinum loknum.

Upphæðin sem um ræðir var á síðasta ári framkvæmdanna en er nú færð framfyrir þannig hægt er að nýta hana strax á næsta ári. Þar með eiga framkvæmdir að geta hafist þá. Um er að ræða nýja varnargarða fyrir neðan Nes- og Bakkagil.

Tryggt að framkvæmdir á Seyðisfirði stöðvuðust ekki

Í ár hefur ríkið einnig tryggt 150 milljóna viðbótarframlag þannig hægt sé að halda áfram vinnu við snjóflóðavarnagarða á Seyðisfirði. Sú framkvæmd er á undan áætlun og hefði stöðvast án viðbótarinnar. Á ríkisstjórnarfundinum í morgun var einnig tilkynnt að ríkið myndi leggja til um 200 milljónir þannig hægt sé að flytja sögufræg hús af aurskriðusvæðinu í sunnanverðum firðingum.

Aðspurður um varnir gegn aurskriðum fyrir ofan íbúabyggðina þar segir Guðlaugur Þór þær vera í skoðun. „Því miður er margt sem við þurfum að fara yfir og verkum okkar við ofanflóðavarnir er hvergi nærri lokið. Það er ánægjulegt að við höfum fundið leiðir til að setja fjármagn í húsinu og geta haldið framkvæmdum áfram en við erum meðvituð að verkefnin eru fleiri. Við munum setjast yfir þau eins og önnur.“

Ákveðið að verja atvinnusvæðin

Tvær vikur eru síðan Guðlaugur Þór kom austur áfram Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og starfsmönnum Veðurstofu Íslands og Ofanflóðasjóðs. Tilefnið var að hitta sveitarstjórnir Múlaþings og Fjarðabyggðar og fara yfir drög að úttekt um mögulegar varnir atvinnusvæða sem eru í hættu vegna ofanflóða. Til þessa hafa þau verið útundan.

„Stærsta málið í dag er að ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína um að ég flytji frumvarp um breytingu á ofanflóðasjóði þar atvinnusvæðin verði tekin inn í. Það er stórt framfaraskref sem tengist þessu svæði mikið,“ segir Guðlaugur Þór. Á Austurlandi eru atvinnusvæði á Norðfirði og Seyðisfirði á hættusvæðum.

Til þessa hafa varnir íbúabyggðar verið í forgangi og stefnt á að ljúka við þær árið 2030. Guðlaugur Þór segir enn ekki útfært hvenær verið farið í atvinnusvæðin. „Frumvarpið er á þingmálaskrá og síðan er það stjórnar ofanflóðasjóðs og sveitarfélaganna að vinna úr því.

Við höfum sett 35 milljarða í ofanflóðavarnir síðan það verkefni hófst og það er áætlað að bara að verja íbúasvæðin kosti 35 milljarða í viðbót. Nú bætast atvinnusvæðin við, sem ég tel afskaplega mikilvægt. Þetta tengist allt saman því við vitum að það verður engin uppbygging á atvinnusvæðum ef ekki er hægt að tryggja öryggi þar.

Á fundunum með sveitarfélögunum um daginn kom fram skýr vilji til að skipuleggja til framtíðar á tryggum svæðum. Við hefðum komið í veg fyrir mikið tjón ef við vissum það sem við vitum nú. Við getum ekki snúið til baka en við hugum til framtíðar. Hér er ákveðið að taka atvinnusvæðin með og sömuleiðis að hafa sveigjanleika þegar við getum ekki varið svæði í að finna hagkvæmar leiðir í sátt við heimafólk.“

Heimild: Austurfrett.is