Home Fréttir Í fréttum Verk og vit 2024: Um 90% sýningarsvæðis selt

Verk og vit 2024: Um 90% sýningarsvæðis selt

84
0
Mynd: Verkogvit.is

Stórsýningin Verk og vit 2024 verður haldin í Laugardalshöllinni 18.-21. apríl á næsta ári, en þar munu fyrirtæki og stofnanir sem starfa í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð kynna vörur sínar og þjónustu. Mikill hugur er í þeim sem starfa á þessu sviði, því nú þegar er um 90% sýningarsvæðis Verk og vit 2024 selt.

<>

Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit, segir ánægjulegt að sjá hvað sýnendur eru ákveðnir í að tryggja sér sýningarrými. „Það er frábært að svo stór hluti sýningarsvæðisins sé þegar seldur þótt enn séu rúmir sjö mánuðir í sýningu. Það undirstrikar hve þörf og öflug þessi sýning er fyrir byggingariðnað, skipulagsmál og mannvirkjagerð. Þetta er í sjötta sinn sem við förum af stað með Verk og vit og þótt fyrirtæki og stofnanir hafi jafnan verið snögg að taka ákvörðun um þátttöku eru viðtökurnar nú með því besta sem við höfum séð.

Verk og vit hefur skipað sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir fólk og fyrirtæki í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð til að hittast, kynna starfsemina, styrkja viðskiptasambönd og afla nýrra. Á síðustu sýningum hafa sýnendur verið yfir 100 talsins, auk þess sem fjölmargir viðburðir hafa verið haldnir í tengslum við sýningarnar.

Heimild: Verkogvit.is