Fyrsta framkvæmdin vegna borgarlínu hefst fyrir árslok þegar jarðvegsframkvæmdir hefjast fyrir brú yfir Fossvog. Stefnt er á útboð verksins í haust.
Framkvæmdastjóri Betri samgangna segir að vinna við brú yfir Fossvog hefjist á þessu ári. Það væri fyrsta framkvæmdin á höfuðborgarsvæðinu vegna borgarlínu.
Brú yfir Fossvog er hugsuð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, auk þess verður þar akbraut fyrir almenningsvagna. Markmiðið er að bæta samgöngur milli Reykjavíkur og Kópavogs. Brúin verður 270 metrar. Hún teygir sig frá flugbrautarenda rétt vestan við Nauthólsvík, yfir á Kársnes í Kópavogi.
Haldin var samkeppni um hönnun hennar og sigurvegarinn reyndist vera brúin Alda, sem sögð er látlaust en jafnframt kröftugt mannvirki.
„Já, ég á von á því. Að við getum hafið framkvæmdir vegna Fossvogsbrúarinnar, sem væru þá fyrstu framkvæmdirnar vegna Borgarlínunnar, á þessu ári,“ segir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna. Og bætir við að verkið hafi tafist vegna jarðvegsrannsókna.
En hvenær verður verkið boðið út?
„Það er verið að stefna á að útboð vegna fyllinganna við brúarendana verði í október, nóvember. Og framkvæmdin þá hefjist í nóvember, desember. En vegna brúarinnar sjálfrar, brúarsmíðarinnar, það er þá á næsta ári.“
Heimild: Ruv.is