Home Fréttir Í fréttum Miklu færri íbúðir seljast en áður og fara á lægra verði

Miklu færri íbúðir seljast en áður og fara á lægra verði

85
0
Á gangi í Reykjavík. RÚV

Nærri þriðjungi færri kaupsamningar á íbúðarhúsnæði voru gerðir í vor og byrjun sumars en á sama tíma í fyrra. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um rúmlega sex prósent að teknu tilliti til verðbólgu.

<>

Raunverð íbúða hefur lækkað um rúmlega sex prósent á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega þrjú prósent í nágrenni þess síðustu tólf mánuði. Húsnæðisverð hefur hins vegar hækkað um eitt og hálft prósent annars staðar á landinu, að teknu tilliti til verðbólgu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hún leiðir í ljós miklar breytingar á húsnæðismarkaði. Auk þess sem raunverð hefur lækkað á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess hefur kaupsamningum fækkað verulega.

Á öðrum ársfjórðungi voru þeir tæplega átján hundruð talsins samanborið við 2.600 á sama tíma í fyrra. Fækkunin er rúmlega 31 prósent. Þetta gerist þrátt fyrir að íbúðum sem eru auglýstar til sölu hafi fjölgað lítillega.

Síðustu ár hefur verið lögð aukin áhersla á að reisa minni íbúðir.
RÚV – Ragnar Visage

Um mitt ár 2020 voru um fjögur þúsund íbúðir til sölu en þeim fækkaði í þúsund á fyrstu mánuðum síðasta árs. Síðan þá hefur þeim fjölgað jafnt og þétt og eru rúmlega þrjú þúsund.

Í skýrslunni er einnig litið til stöðu fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Þrjátíu eða fleiri fyrirtæki urðu gjaldþrota í hverjum mánuði í mars, apríl og maí. Um það leyti voru fleiri gjaldþrot í greininni en nokkru sinni síðan 2012. Gjaldþrotum fækkaði þó í 21 í júní. Þá tóku 56 ný fyrirtæki til starfa.

Heimild: Ruv.is