Home Fréttir Í fréttum Neyðarástand í húsnæðismálum á Hólum

Neyðarástand í húsnæðismálum á Hólum

65
0
RÚV – Sölvi Andrason

Háskólaráðherra hefur skrifað undir viljayfirlýsingu sem felur meðal annars í sér að fara í greiningu á húsnæði Háskólans á Hólum. Rektor skólans segir algert neyðarástand ríkja í þeim málum.

<>

Rektor Háskólans á Hólum segir að það ríki neyðarástand í húsnæðismálum skólans. Nýverið var skrifað undir viljayfirlýsingu sem fól meðal annars í sér úrbætur á skólanum.

Mikilvægt að fá húsnæði fyrir lagareldi
Þegar viljayfirlýsing um mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum var undirrituð var jafnframt samþykkt að fara í greiningu á húsnæðismálum Háskólans á Hólum. Í því felst að bæta aðstöðu til náms í lagareldi með því að byggja rúmlega sex þúsund fermetra kennsluhúsnæði á Sauðárkróki. Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, segir mikilvægt að það hljóti brautargengi.

„Þetta nám er ekki til á Íslandi í dag og við vitum öll að lagareldi er gríðarlega stórt mál. Við ætlum að byggja matvælaframleiðslu í framtíðinni upp að stórum hluta í lagareldi þannig við verðum að koma okkur upp rannsóknar og kennsluhúsnæði til að geta staðið undir kennslu og rannsóknum í lagareldi,“ segir Hólmfríður.

Þurfa að finna framtíðarlausn sem fyrst
Hún segir ekki síður mikilvægt að húsnæðismálin á Hólum verði leyst. Mygla greindist þar fyrir fjórum árum. Síðan þá hefur framtíð hússins verið óljós. Hólmfríður segir að annað hvort verði litið til þess að það verði lagað, eða að nýtt verði reist við reiðhöllina á Hólum.

„Ég get ekki annað en fagnað því að eitthvað sé að gerast í húsnæðismálunum því að við getum ekki haldið úti kennslu og rannsóknum eins og ástandið er í dag, ekki til langs tíma,“ segir hún.

„Þetta er algert neyðarástand sem komið er upp og mikilvægt að finna framtíðarlausn á því sem fyrst.“

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.
RÚV – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Heimild: Ruv.is