Samkvæmt uppgjöri Reita miðar samrunaviðræðum við Eik fasteignafélags vel áfram og eru tíðindi væntanleg.
Heildarhagnaður fasteignafélagsins Reita á fyrstu sex mánuðum ársins nam 6,747 milljörðum króna sem er hækkun úr 4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins 2022.
Rekstrarhagnaður Reita fyrir matsbreytingu nam 4,9 milljörðum króna á fyrri árshelmingi sem er hækkun úr 4,4 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á hlut var 9,1 króna á tímabilinu sem er hækkun úr 5,3 krónum á tímabilinu í fyrra.
Tekjur félagsins á tímabilinu voru 7,3 milljarðar sem er töluverð hækkun frá 6,5 milljörðum á fyrri hluta árs 2022.
Arðsemi eigna hélst stöðugt á milli ára og var 5,7% sem er 0,1% hækkun frá tímabilinu í fyrra. Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) var 96% sem er hækkun úr 94,9% í fyrra.
Hækka horfur um 100 milljónir króna
Virði fjárfestingaeigna nam 185 milljörðum króna sem er hækkun úr 172 milljörðum í fyrra. Handbært og bundið fé félagsins hækkar töluvert á milli ára og fer úr 871 milljón króna í 3,76 milljarða króna.
Vegna góðrar afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins hafa Reitir hækkað horfur um tekjur og rekstrarhagnað á árinu um 100 milljónir króna. Er nú gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14,95 milljarðar króna til 15,15 milljarðar króna.
Fréttir af samrunaviðræðum við EIK væntanlegar
Í uppgjörinu er tekið fram vænta megi frétta af samrunaviðræðunum við EIK í fyrri hluta septembermánaðar en þar segir að samrunaviðræðurnar séu í þeim farvegi sem þeim var markaður í upphafi í samstarfi við lögfræðilega og rekstrarlega ráðgjafa.
„Er viðræðunum ætlað að gefa stjórnum félaganna svigrúm til að greina eignasöfn beggja félaga, heppilega umgjörð viðskipta og skipulag sameinaðs félags,“ segir í uppgjörinu.
Er þar einnig tekið fram að stjórnir félaganna tveggja telji umtalsverð tækifæri geta falist í sameiningu þeirra og að samlegðaráhrifin birtist einkum í aukinni rekstrarhagkvæmni, aukinni sérhæfingu, bættri þjónustu við krefjandi markaði og hraðari tekjumyndun af uppbyggingu þróunareigna.
Heimild: Vb.is