Home Fréttir Í fréttum Fresta byggingu nýrrar Hamars­hallar

Fresta byggingu nýrrar Hamars­hallar

82
0
Gamla Hamarshöllin var uppblásin. Sú nýja mun ekki verða það, þegar hún rís.

Bæjar­stjórn Hvera­gerðis­bæjar telur ekki raun­hæft að halda á­fram með sam­keppnis­við­ræður um upp­byggingu Hamars­hallarinnar. Nauð­syn­legt er talið að for­gangs­raða fjár­munum bæjarins í stækkun skolp­hreinsi­stöðvar vegna aukinnar í­búa­fjölgunar og upp­byggingu á gervi­gras­velli.

<>

Bæjarstjórn metur svo að með þessu gefist betri tími til að undir­búa upp­byggingu Hamars­hallarinnar. Minni­hlutinn telur skýringu meiri­hlutans ranga og ó­boð­lega.

Þetta kemur fram í fundar­gerð bæjar­ráðs Hvera­gerðis­bæjar frá fundi þess frá því í morgun. Áður hafði bæjar­stjórn hafnað öllum til­boðum sem bárust í byggingu nýrrar Hamars­hallar, en sú gamla var upp­blásin og fauk í ó­veðri í febrúar í fyrra. Var til­boðum hafnað vegna þess að þau voru talin of há.

Erfiðara efna­hags­um­hverfi nú

„Það er mat bæjar­yfir­valda að ekki sé raun­hæft að halda á­fram með sam­keppnis­við­ræður um upp­byggingu Hamars­hallarinnar þar sem nauð­syn­legt er fyrir Hvera­gerðis­bæ að for­gangs­raða fjár­munum bæjarins í stækkun skolp­hreinsi­stöðvar bæjarins sem ekki var hugað að á síðustu árum með aukinni í­búa­fjölgun.“

Þá segir í fundar­gerðinni að efna­hags­um­hverfið sé mun erfiðara nú en þegar á­kveðið var fyrir einu ári síðan að fara af stað með upp­byggingu Hamars­hallarinnar. Á­kveðið hafi verið að fara í upp­byggingu á gervi­gras­velli og leigja í­þrótta­hús í Vorsa­bæ fyrir inni­í­þróttir.

„Með þessum að­gerðum gefst betri tími til að undir­búa fram­tíðar­upp­byggingu Hamars­hallarinnar á næstu árum en að­eins er verið fresta á­ætlunum um upp­byggingu Hamars­hallarinnar en ekki hætta við þær. Gerð hefur verið skyn­sam­leg á­ætlun um á­fanga­upp­byggingu Hamars­hallarinnar sem á­fram verður byggt á. Bjóð­endum er þakkað fyrir gott sam­starf.“

Gera at­huga­semdir við skýringu meiri­hlutans

Ey­þór H. Ólafs­son, full­trúi D-listans sem er í minni­hluta, segist í bókun sinni á fundinum sam­þykkja að fallið sé frá sam­keppnis­við­ræðunum. Það komi ekki á ó­vart, því legið hafi fyrir frá upp­hafi áður en byggingin var boðin út að fram­kvæmdin væri allt­of dýr fyrir bæjar­fé­lagið.

„Undir­ritaður hnýtur hins vegar um þá skýringu sem sett er fram fyrir því að ekki sé raun­hæft að fara í þessa fram­kvæmd nú. Sú skýring er bæði röng og ó­boð­leg í alla staði,“ skrifar Ey­þór.

„Fyrir hefur legið um ára­bil að gera hefur þurft endur­bætur á skólp­hreinsi­málum Hvera­gerðis­bæjar og hafa bæjar­full­trúar nú­verandi meiri­hluta sem þá sátu í bæjar­stjórn væntan­lega fylgst með þeirri um­ræðu sem átt hefur sér stað og átt að gera sér grein fyrir að ekki mætti slá slöku við þrátt fyrir meiri­hluta­skiptin.“

Hann segir að í tíð fyrri meiri­hluta hafi verið unnið mikið að því að endur­bæta nú­verandi skólp­hreinsi­stöð, sem ljóst hafi verið að sé ekki nægi­lega stór fyrir fjölgun íbúa sem orðið hefur undan­farin ár. Nýjum meiri­hluta hafi ekki borið gæfa til að halda á­fram með þann bolta fyrr en mögu­lega núna.

„Það er í besta falli fljót­ræði að kasta fram full­yrðingum um að endur­bætur og aukning af­kasta­getu frá­veitu­kerfis bæjarins muni kosta 1 milljarð króna. Fyrir liggur að til eru mun ó­dýrari og nú­tíma­legri lausnir sem hægt er að inn­leiða í hæfi­legum skrefum sé skyn­sam­lega haldið á málum.“

Heimild: Visir.is