Home Fréttir Í fréttum Meira verður byggt í Breiðholti

Meira verður byggt í Breiðholti

176
0
Efra-Breiðholt. Nýja íbúðabyggðin mun rísa austan við fjölbýlishúsin. Breiðholtsbraut sést neðst á myndinni. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykja­vík­ur­borg hef­ur birt lýs­ingu á deili­skipu­lagi fyr­ir þró­un­ar­svæði við Suður­fell. Þar stend­ur til að byggja nýtt hverfi íbúðar­húsa í Efra-Breiðholti. Stutt er síðan borg­in birti deili­skipu­lags­lýs­ingu fyr­ir Norður-Mjódd í Breiðholti.

<>

Al­menn­ing­ur get­ur kynnt sér gögn­in um þessi áform á skipu­lags­gatt.is.

Breiðholtið er einn stærsti og fjöl­menn­asti borg­ar­hluti Reykja­vík­ur og því sæt­ir það tíðind­um þegar ný íbúðahverfi eru skipu­lögð í þessu gróna hverfi höfuðborg­ar­inn­ar. Efra-Breiðholt er það hverfi borg­ar­inn­ar sem hæst ligg­ur.

Upp­bygg­ing hófst 1969

Upp­bygg­ing hófst í Fella­hverfi í Breiðholti III haustið 1969 og á næstu fimm árum voru byggðar 886 íbúðir í 18 íbúðar­hús­um. Þar á meðal var lengsta hús á Íslandi, 320 metr­ar. Nú, hálfri öld síðar, verður ráðist í stækk­un hverf­is­ins.

Kort/​mbl.is

Skipu­lags­lýs­ing­in tek­ur til þró­un­ar­svæðis í suðaust­ur­hluta Fella­hverf­is. Til­gang­ur henn­ar er að greina frá svæðinu, áhersl­um og mark­miðum við skipu­lags­gerðina, for­send­um sem liggja að baki og fyr­ir­huguðu skipu­lags­ferli.

Um er að ræða óbyggt svæði sem ligg­ur aust­an við Fella­hverfi og nær að mörk­um Elliðaár­dals. Aðkoma að svæðinu er um Suður­fell og liggja göngu­stíg­ar og hjóla­stíg­ar um svæðið sem tengj­ast göngu­stíga­kerfi Elliðaár­dals.

Ligg­ur frek­ar hátt í landi

Um­rætt svæði er 4,28 hekt­ar­ar. Það ligg­ur frek­ar hátt í landi, á bil­inu 91-97 metra yfir sjáv­ar­máli. Land­halli er um 10-17­metr­ar í aust­ur í átt að Elliðaár­dal. Svæðið er kjarr­vax­inn mói með ein­staka mel­um.

Þró­un­ar­reit­ur­inn af­mark­ast af Suður­felli til vest­urs og er í beinu fram­haldi af nú­ver­andi byggð, Keilu­felli til norðurs, Elliðaár­dal til aust­urs og Arn­ar­nes­vegi til suðurs.

Í nýju deili­skipu­lagi verður gert ráð fyr­ir lág­reistri íbúðarbyggð, 1-2 hæðir, með 50-75 íbúðum. Byggð skal aðlag­ast vel að landi og mynda sól­rík og skjólgóð úti­svæði fyr­ir íbúa. Opin svæði og stíg­ar/​hjóla­stíg­ar skulu mynda góða teng­ingu milli eldri byggðar hand­an Suður­fells og hinn­ar nýju byggðar, og jafn­framt við úti­vist­ar­svæði Elliðaár­dals.

„Stefnt er að útboði á lóðarút­hlut­un sam­hliða gerð deili­skipu­lags og aðal­upp­drátta. Það skipu­lag­steymi og upp­bygg­ing­araðili sem verður fyr­ir val­inu fær því tæki­færi til að byggja upp hverfið frá fyrstu drög­um og full­móta byggðina af hug­sjón með áherslu á vandaðan arki­tekt­úr, um­hverfi og sam­fé­lag að leiðarljósi,“ seg­ir í lýs­ing­unni.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag, 3. ág­úst. 

Heimild: Mbl.is