Margir íbúar í Vallarhverfi í Hafnarfirði voru hvekktir síðdegis á þriðjudag vegna sprengingar sem heyrðist vel í suðurhluta bæjarins. Í fyrstu var óljóst hver uppruni hljóðsins var en nú liggur fyrir að það hafi að öllum líkindum borist frá Vatnsgarðsnámum við Krýsuvíkurveg.
Framkvæmdastjóri í námudeild Steypustöðvarinnar staðfestir að hvellur hafi heyrst frá dýnamítsprengju í malarnámu fyrirtækisins í Vatnsgarðsnámum á þessum tíma. Engin hætta hafi verið á ferðum.
Þetta segir Hörður Pétursson í samtali við RÚV. Starfsmenn fyrirtækisins hafi verið að vinna við reglulega berglosun í námunni á þriðjudag sem hafi verið í notkun í áratugi. Hann bætir við að sprengt sé þar einu sinni til tvisvar í mánuði að jafnaði og ekkert óeðlilegt hafi verið á ferð.
Sprengingin var meðal annars rædd á íbúahópi Vallarhverfisins á samfélagsmiðlinum Facebook á þriðjudag. Þar lýstu íbúar því að sprengingin hafi verið afar hávær og heyrst vel um hverfið. Þá sagðist einn íbúa hafa séð mikinn moldarstrók upp við námur í átt að Krýsuvík og líklegt að þangað megi rekja sprenginguna.
Haft er eftir Herði í frétt RÚV að sennilega hafi verið um ryk og moldaryk frá námunni að ræða en óvenjuþurrt hefur verið á svæðinu að undanförnu.
Einn íbúa sem Vísir ræddi við á þriðjudag sagðist hafa setið í sófanum þegar sprengingin varð. Sér hefði verið mikið brugðið, ekki síst á eldgosatímum líkt og þessum þar sem Vallarhverfi hefði oft verið nefnt í sömu andrá og möguleg gos á Reykjanesskaga.
Heimild: Visir.is