Home Fréttir Í fréttum Meiri kraftur í að byggja hótel en íbúðir

Meiri kraftur í að byggja hótel en íbúðir

90
0
Reykjavik Consulate Hotel, verður í Hafnarstræti.
Fjölgun íbúða í byggingu stóð nánast í stað í fyrra miðað við árið á undan þrátt fyrir áætlanir um að auka framboð á íbúðarhúsnæði. Samtök iðnaðarins gera ráð fyrir áframhaldandi töfum.
Fram kemur í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands að nú sé talið að íbúðafjárfesting hafi nánast staðið í stað í fyrra, en áður hafi verið spáð talsverðri aukningu.
Svo virðist sem áður áætlaðar framkvæmdir hafi ekki gengið eftir í sama mæli og spáð var, og meiri kraftur hafi farið í að byggja hótel og annað gistirými.
Hagstofan spáir því að íbúðafjárfesting aukist um 11% á þessu ári, en töluvert meira á næsta og þarnæsta ári. Fram kemur að ef spáin rætist séu fimm ár í að íbúðafjárfesting verði orðin svipuð í hlutfalli við landsframleiðslu og hún var að meðaltali 1997-2014.
En þýðir þetta að áætlanir um meiriháttar átak í að fjölga íbúðum hafi ekki gengið eftir? Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins, segir að sveitarfélög veki oft á tíðum vonir og væntingar sem standist svo kannski ekki. „Það eru alls konar þröskuldar sem við erum að lenda í,“ segir Friðrik.
Til dæmis tefji kærumál nágranna nýbyggingar þar sem þétta á byggð. „Þetta eru bara alls konar dæmi, sem eru að koma upp, sem verða þess valdandi að það er erfiðara að fara af stað og þetta gerist hægar.“ Finna þurfi aðferð til að gera auðveldara að byggja nýjar íbúðir. Friðrik segir einnig að menn velti því fyrir sér hvort ávinningur fyrirtækja af því að byggja íbúðarhúsnæði sé hreinlega ekki nógu mikill.
Útlitið fyrir þetta ár er ekki mikið bjartara, að mati samtakanna. „Okkur sýnist að enn og aftur hægi á. Það er töf í þessu. Þetta er ekki að gerast jafnhratt og við áttum von á. Það er eiginlega bara sama svar og við gáfum fyrir ári síðan,“ segir Friðrik.
Heimild: Rúv.is