Home Fréttir Í fréttum Ráðist í laga­breytingar í kjöl­far brunans við Bræðra­borgar­stíg

Ráðist í laga­breytingar í kjöl­far brunans við Bræðra­borgar­stíg

45
0
Þrír létust í brunanum. VÍSIR/EGILL

Innviðaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brunavarna í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu til að tryggja að sem réttastar upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma um búsetu fólks.

<>

Þetta kemur fram í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem vísað er til vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu en verkefni hans var að fylgja eftir fjórum tillögum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem fram komu í skýrslu sem unnin var í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg 1.

Þrír létust í brunanum.

„Opinberar upplýsingar um búsetu í íbúðarhúsnæði byggja á lögheimils- og aðsetursskráningu hjá Þjóðskrá. Engar takmarkanir eru þó á fjölda lögheimilisskráninga á hverja íbúð sem býður upp á að mun fleiri séu skráðir til heimilis í íbúð en búa þar í raun. Raunverulegt aðsetur þessa fólks er þá á huldu,“ segir í Samráðsgáttinni.

„Þá liggur fyrir að mikill fjöldi fólks, vel á 4 þúsund manns, er skráður óstaðsettur í hús í Þjóðskrá. Talið er að stór hluti þessa hóps hafi búsetu í svonefndu óleyfishúsnæði þar sem hvorki er heimilt að skrá lögheimili né aðsetur.

Afar mikilvægt er út frá öryggissjónarmiðum að sem réttastar upplýsingar um búsetu fólks liggi fyrir á hverjum tíma. Snýr það m.a. að því að tryggja rétt viðbragð ef upp kemur vá, s.s. við bruna, en einnig að því að hægt sé að tryggja fullnægjandi eftirlit með brunavörnum í húsnæði sem nýtt er til búsetu.“

Einnig sé mikilvægt að eftirlitsaðilar hafi skýrar heimildir til eftirlits með húsnæði sem nýtt sé sem íbúðarhúsnæði og jafnframt að við brotum liggi skýr viðurlög sem hafi raunveruleg varnaðaráhrif.

Því standi til að breyta lögum til að:

– tryggja nauðsynlegar lagaheimildir til að takmarka fjölda lögheimilisskráninga í íbúð,

– heimila tímabundnar aðsetursskráningar í annars konar húsnæði en íbúðarhúsnæði og eftir atvikum rýmka heimildir til veitingar húsnæðisbóta þannig að þær hvetji til réttrar skráningar aðseturs,

– og tryggja fullnægjandi lagaheimildir til aðgangs að húsnæði og beitingu viðurlaga ef um brot er að ræða.

Heimild: Visir.is