Home Fréttir Í fréttum Sumarhúsaeigandi fær 900 þúsund króna afslátt af 14 milljón króna glerskála

Sumarhúsaeigandi fær 900 þúsund króna afslátt af 14 milljón króna glerskála

168
0
Sumarbústaðir í Tungudal. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: RUV.is – Jóhannes Jónsson

Kærunefnd vöru-og þjónustukaupa hefur gert fyrirtæki að gefa sumarhúsaeiganda nærri 900 þúsund króna afslátt af vinnu við glerskála. Sumarhúsaeigandinn sagðist ekki hafa getað notað sumarhúsið sitt í hálft ár vegna tafa á vinnu fyrirtækisins.

<>

Sumarhúsaeigandi á rétt á 900 þúsund króna afslætti af vinnu fyrirtækis við uppsetningu glerskála. Þetta er niðurstaða kærunefndar vöru-og þjónustukaupa.

Mistök gerð þegar glerið var flutt
Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að sumarhúsaeigandinn hafi gert samning við fyrirtækið í desember fyrir tveimur árum um smíði og uppsetningu glerskála. Hann átti að vera hluti af alrými sumarhússins og var kostnaður við verkið rúmar 14 milljónir.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að skálinn hafi átt að vera tilbúinn í maí á síðasta ári en verklok drógust til loka nóvember. Sumarhúsaeigandinn sagði í kvörtun sinni að tafirnar mætti rekja til þess að fyrirtækið hefði verið seint að panta efni og að undirstöður hefðu ekki verið tilbúnar á réttum tíma þar sem teikningunum hefði ekki verið skilað líkt og beðið hefði verið um.

Sumarhúsaeigandinn taldi fleira til í kvörtun sinni. Þannig hefði glerið í glerskálann ekki verið flutt alla leið á verkstað heldur skilið eftir í 100 metra fjarlægð. Mælt hefði verið með að notaður yrði lítill flutningabíll en fyrirtækið hefði notast við stóran flutningabíl sem ekki hefði komist upp að sumarhúsinu. Sumarhúsaeigandinn hefði því sjálfur þurft að flytja glerið vegna þessara mistaka.

Skellti skuldinni á sumarhúsaeigandann
Þá sagði sumarhúsaeigandinn að þrátt fyrir miklar tafir hefðu starfsmenn fyrirtækisins ekki unnið nema þrjár til þrjár og hálfa klukkustund á dag. Tafirnar hefðu haft áhrif á skipulag og áætlanir hans og annarra sem hefðu ætlað að nýta svæðið til hvíldar og afþreyingar. Fyrirtækið hefði síðan umsvifalaust hótað að leggja á dráttarvexti ef greiðsla fyrir verkið myndi tefjast.

Fyrirtækið hafnaði þessu og sagði efnisskort í Evrópu vegna COVID-19 hafa gert því erfitt fyrir. Ómögulegt hefði verið að koma glerinu fyrir í smærri bíl og sá grunnur sem sumarhúsaeigandinn hefði látið reisa hefði verið með öllu ófullnægjandi og haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir félagið. Vanræksla sumarhúsaeigandans hefði valdið fyrirtækinu verulegu fjárhagstjóni og heilu dagarnir farið til spillis.

Veitti ekki fullnægjandi upplýsingar
Kærunefndin sagði sumarhúsaeigandann ekki hafa lagt fram nein gögn um að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna tafa á verkinu.

Nefndin taldi hins vegar að fyrirtækinu bæri að greiða 736 þúsund krónur þar sem það hefði ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um þann grunn sem þurfti undir glerskálann. Þá telur nefndin að fyrirtækið þurfi að greiða fyrir flutning á glerinu upp að sumarhúsinu.

Ekki hafi verið sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti að slíkt hafi ekki verið hægt. Samtals beri fyrirtækinu því að lækka greiðslukröfu sína um tæpar 900 þúsund krónur.

Heimild: Ruv.is