Home Fréttir Í fréttum Viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 hafin

Viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 hafin

66
0
Viðgerðarprammi Landsnets úti fyrir Landeyjum, Vestmannaeyjar í bakgrunni. Landsnet – Kell N Thyssen

Viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 er hafin eftir bilun í vetur. Vestmannaeyingar hafa búið við skerta raforku síðan. Verkefnastjóri vonar að veðrið verði þeim hliðhollt.

<>

Viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 hófst um helgina eftir bilun í vetur. Eyjamenn hafa búið við skerta raforku síðan. Verkefnastjóri hjá Landsneti vonast til að veðrið verði viðgerðarmönnum hliðhollt.

Viðgerðarpramminn í höfn í Vestmannaeyjum, starfsmenn Landsnets stilla sér upp á höfninni fyrir framan hann.

Viðgerðarprammi, sem kom til landsins á laugardag, sigldi um kílómetra út frá Landeyjum og var festur með akkerum. Strengurinn var settur á belgi og flýtur á sjónum.

Ætlunin var að draga strenginn á land í nótt en veðrið kom í veg fyrir það. Þórarinn Bjarnason verkefnastjóri hjá Landsnet segir of mikinn vind vera á staðnum. „Þannig að við bíðum átekta en okkur skilst að það eigi að lægja eftir því sem líður á daginn. Þannig að við gerum ráð fyrir að ná að klára þetta annað hvort í kvöld eða nótt.“

Aðeins þarf að skipta út um tveggja kílómetra kafla en strengurinn er þrettán kílómetrar.

„Svo þegar við erum búin að draga hann út þá lyftum við gamla strengnum upp og skerum hann og tengjum hann svo við nýja strenginn á þessum viðgerðarpramma sem við erum með.“

Viðgerð á að taka um tíu daga en það fer eftir veðri. Mikið brim er í fjörunni í Landeyjum sem getur gert viðgerðarmönnum erfitt fyrir. Þórarinn segir vindinn og straumana hafa gert viðgerðarmönnum lífið leitt þar sem það taki í strenginn.

Mynd tekin seint í gær þegar viðraði vel til viðgerðar.

„Þegar strengurinn flýtur svona á belgjum þá tekur hann svolítinn vind á sig þannig að það má ekki vera of mikill vindur. Það eru talsvert erfiðar aðstæður en þetta eru vanir menn þannig að við vonumst til að þetta gangi nú allt. Þetta er eiginlega ómögulegt nema veðrið spili með.“

Heimild: Ruv.is