Home Fréttir Í fréttum Nýr mið­bær á Egils­stöðum muni laða fólk að

Nýr mið­bær á Egils­stöðum muni laða fólk að

71
0
Björn Ingimarsson er sveitarstjóri Múlaþings. SIGURJÓN ÓLASON

Uppbygging á nýjum miðbæ á Egilsstöðum er hafin. Sveitarstjóri Múlaþings segir að á næstu þremur árum verði hægt að sjá móta fyrir 160 nýjum íbúðum í bland við græn svæði í hjarta bæjarins.

<>

Hugmyndir um miðbæ á Egilsstöðum eru ekki nýjar. Deiliskipulag var samþykkt árið 2006 en komst aldrei til framkvæmda.

Núna er þó komin hreyfing á hlutina, en í nyrsta hluta bæjarins er í undirbúningi mikil uppbygging fjölbýlis á vegum félags eldri borgara sem sveitarstjórinn segir fyrsta skrefið í uppbyggingu nýs miðbærs.

Vistvænt umhverfi

Löng göngugata tekur við þeirri byggð þar sem gert er ráð fyrir íbúðum á efri hæðum bygginga og verslun á neðri hæðum. Miðbærinn í heild sinni gerir ráð fyrir 160 nýjum íbúðum.

„Það sem við erum að horfa á er að hér myndist vistvænt umhverfi. Við gerum ráð fyrir langri göngugötu með mörgum áningarstöðum. Bílastæðin verða fyrir utan þetta, þau þurfa auðvitað að vera til staðar. En við erum fyrst og fremst að horfa á að hér verði alltaf líf, þetta verður blanda af þjónustustarfsemi og íbúarstarfsemi,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Göngu og verslunargatan verður kölluð Ormurinn með vísan í Lagafljótsorminn.

Miðbærinn muni laða fólk að

Markmiðið er að skapa líflegan miðbæ með opnum torgum og grænum svæðum fjarri bílaumferð.

„Við erum að tala um svæði þar sem geta verið hópasamkomur sem ég held að skipti bara gífurlegu máli í okkar miðbæ í framtíðinni.“

Íbúar hafi lengi kallað eftir alvöru miðbæ og sér Björn fyrir sér að uppbyggingin muni eiga sér stað á næstu þremur árum.

„Auðvitað skeður þetta ekki einn, tveir og þrír en þegar þetta verður komið þá verður hér virkilega skemmtilegt miðbæjarsvæði sem mun laða fólk að.“

Heimild: Visir.is