Home Fréttir Í fréttum Fram­boð í­búða eykst enn og sölu­tíminn lengist

Fram­boð í­búða eykst enn og sölu­tíminn lengist

81
0
Útlit er fyrir að fólk sé að færa sig úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð. VÍSIR/VILHELM

Framboð íbúða hefur haldið áfram að aukast, aðallega vegna lengri sölutíma, og þá hefur þeim íbúðum fjölgað hlutfallslega sem seljast undir ásettu verði. Íbúðum til sölu hefur fjölgað um 300 á þremur mánuðum og eru nú 1.800 talsins.

<>

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir júní.

Þar segir að aðeins 9,7 prósent íbúða í fjölbýli sem voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu um miðjan apríl hafi verið seldar innan 30 daga.

„Ef síðustu jól og áramót eru undanskilin hefur hlutfallið ekki verið jafn lágt síðan um mitt ár 2020 en þá var framboð íbúða til sölu nokkuð meira en það er nú. Ef aðeins er horft til 25% dýrustu íbúðanna til sölu var innan við 5% íbúða seldur 30 dögum síðar,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að í maí hafi 11 prósent íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði, samanborið við 13 prósent í apríl, og 12,3 prósent sérbýla, samanborið við 4,1 prósent í apríl.

Enn sé að hægja á fasteignamarkaðnum.

„Í apríl seldust aðeins 531 íbúðir á landinu öllu miðað við árstíðaleiðréttar tölur, samanborið við 610 í mars. Þriggja mánaða meðaltal yfir fjölda kaupsamninga dróst nokkuð saman eftir að hafa verið tiltölulega stöðugt í 5 mánuði þar á undan.“

Eftir viðbrögð bankanna við síðustu stýrivaxtahækun eru breytilegir óverðtryggðir vextir á fyrsta veðrétti nú á bilinu 10,25 til 10,50 prósent. HMS segir vexti ekki hafa verið svo háa frá því að stofnunin fór að safna gögnum um vexti í ársbyrjun árið 2010 og mögulega ekki frá því að farið var að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán í einhverjum mæli.

Hrein ný íbúðarlán til heimila námu aðeins 2,9 milljörðum króna í apríl, samanborið við 8,2 milljónir í mars. Þá námu hrein ný verðtryggð lán 5,0 milljörðum króna.

Heimild: Visir.is