Áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu nýs baðshúss á lóð Jarðbaðanna við Mývatn nemur 2,7 milljörðum króna.
Hagnaður Jarðbaðanna við Mývatn nam 392 milljónum króna á síðasta ári og ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu rúmlega 1 milljarði króna í fyrra, samanborið við 582 milljónir króna árið áður.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi kemur fram að félagið hafi hafið byggingu nýs baðhúss á lóð félagsins á fyrri hluta síðasta árs og áætlað sé að framkvæmdum verði lokið á seinni hluta árs 2024. Áætlaður framkvæmdakostnaður nemi um 2,7 milljörðum króna.
Búið sé að tryggja fjármögnun vegna framkvæmdanna. Einnig liggi fyrir frekari fjárfestingarþörf í húsnæði handa starfsfólki félagsins, samhliða uppbyggingaráformum félagsins vegna nýs baðhúss, þar sem ekki sé nægjanlegt framboð af húsnæði í sveitarfélaginu.
Í skýringu í ársreikningnum kemur fram að ákveðið hafi verið að hefja framkvæmdir við nýtt og stærra baðhús og baðlón á svæði félagsins þar sem núverandi aðstaða anni vart lengur þeim mikla fjölda gesta sem sæki jarðböðin, sérstaklega á háannatíma. Auk þess sé húsnæði félagsins orðið úr sér gengið og því ljóst að grípa verði til aðgerða til að mæta sívaxandi fjölda gesta.
Húsheild Hyrna ehf er aðalverktaki verksins og sér um allar framkvæmdir.
Heimild: Vb.is