Home Fréttir Í fréttum Fjögur ný hótel rísa undir Eyjafjöllum og á Hvolsvelli

Fjögur ný hótel rísa undir Eyjafjöllum og á Hvolsvelli

415
0
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra. EINAR ÁRNASON

Fjögur ný hótel eru í undirbúningi í Rangárþingi eystra með gistirými fyrir samtals um tvöþúsund manns. Þrjú hótelanna yrðu undir Eyjafjöllum og eitt á Hvolsvelli.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að tvö hótelanna er verið að skipuleggja að Seljalandi en þar er Seljalandsfoss helsta aðdráttaraflið. Það er þó ekki í grennd við fossinn sem hótelin eru ráðgerð heldur sunnan hringvegarins niður með austurbakka Markarfljóts, í landi Eystra-Seljalands. Þar er þegar rekin gisting í smáhýsum en eigendur þeirra áforma einnig stækkun.

Frá Seljalandi undir Eyjafjöllum.
EINAR ÁRNASON

„Þarna eru aðilar fyrir í rekstri. Svo eru þetta tvö verkefni sem eru að fara að stað, tvö stór hótelverkefni,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Hann segir skipulagsferli taka næstu átta til tólf mánuði og telur að smíði hótelanna gæti hafist næsta sumar. Gert er ráð fyrir fjögurhundruð herbergjum samtals á báðum hótelum, eða um tvöhundruð herbergjum á hvoru.

Horft frá Steinum í átt að Holtsósi. Vestmannaeyjar úti við sjóndeildarhringinn hægra megin.
EINAR ÁRNASON

Stærstu byggingaáformin eru að Steinum undir Eyjafjöllum. Þar vilja menn reisa ferðaþjónustu við Holtsós.

„Þar er verið að hugsa um uppbyggingu á mjög stórri spa-aðstöðu og sjóböðum og einu lúxushóteli, fimm stjörnu hóteli, og svo öðru vegahóteli, tvöhundruð herbergja hóteli, ásamt einum tvöhundruð smáhýsum. Þetta yrði gistirými fyrir örugglega hátt í þúsund manns, kannski rúmlega það,“ segir sveitarstjórinn.

Frá Steinum undir Eyjafjöllum.
EINAR ÁRNASON

En það er ekki bara í sveitinni, það er einnig á Hvolsvelli sem menn eru að huga að byggingu hótels.

„Hér út við Lava eru að hefjast byggingaframkvæmdir á fyrsta áfanga tvöhundruð herbergja hótels.

Og svo er hérna verslunarmiðstöð í deiglunni líka milli N1 og apóteksins. Og svo íbúðabyggingar í fullum gangi því einhversstaðar þarf fólk að búa líka sem kemur og starfar hjá okkur.“

Frá Hvolsvelli.
STÖÐ 2

Sveitarstjórinn telur fulla þörf á meira gistirými.

„Hér er í okkar sveitarfélagi öll gisting, eins og til dæmis í sumar og langt fram á haust, löngu uppseld. Og ekkert lát á. Við sjáum þetta bara á umferðinni sem er hér í gegn.

Þannig að menn eru að grípa tækifærið,“ segir Anton Kári Halldórsson.

Heimild: Visir.is