Home Fréttir Í fréttum Kostar rúma 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1

Kostar rúma 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1

61
0

Áætlaður kostnaður við að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 er 13,2 milljarðar króna, samkvæmt svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur,  um einbreiðar brýr.

<>

Í svarinu kemur jafnframt að alls séu 39 einbreiðar brýr á hringveginum en þær eru aðeins í tveimur kjördæmum, það er í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Í Suðurkjördæmi eru þær 26 talsins en en í Norðausturkjördæmi eru þær 13 en meðalaldur brúanna er 50 ár.

Í fyrra spurði Haraldur Einarsson, flokksbróðir Vigdísar, innanríkisráðherra einnig út í einbreiðar brýr en fyrirspurnin sneri að brúm þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Í svari ráðherra við fyrirspurninni kom fram að 694 einbreiðar brýr væru á þjóðvegum landsins og af þeim væru 197 á vegum þar sem hámarkshraðinn væri 90 kílómetrar.

Haraldur spurði líkt og Vigdís um hvernig skipting brúnna væri eftir kjördæmum en samkvæmt svarinu eru flest í Suðurkjördæmi, eða 73. Í Norðvesturkjördæmi voru þær 61, í Norðausturkjördæmi 57 og í Suðurvesturkjördæmi sex.

Áætlaður kostnaður við að tvöfalda allar 197 brýrnar var metinn 30 milljarðar króna þá.

Heimild: Visir.is