Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Þorlákshöfn með lengingu svonefnds Suðurvarargarðs um 250 metra.
Með því er skapað skjól fyrir sunnanátt, en henni fylgir oft stífur strengur sem skapar vanda þegar stærri skipum er siglt inn í höfnina.
Eldri hluta garðsins nær landi er jafnframt hliðrað til lítið eitt þannig að mannvirkið verður allt betra og notadrýgra en áður var.
„Allt í þessari framkvæmd miðast við að inn til Þorlákshafnar geti auðveldlega komist flutningaskip, allt að 220 metra löng. Þessu fylgir að dýpka þarf höfnina og útbúa þar snúningsrými fyrir stórskip.
Einnig þarf að stytta Austurgarð, sem svo er kallaður, um 80 metra,“ segir Fannar Gíslason, verkfræðingur og yfirmaður hafnadeildar Vegagerðarinnar, við Morgunblaðið.
Heimild: Mbl.is/200milur/