Home Fréttir Í fréttum Fá styrk úr Jöfnunarsjóði fyrir byggingu kirkjunnar í Grímsey

Fá styrk úr Jöfnunarsjóði fyrir byggingu kirkjunnar í Grímsey

88
0
Mynd: RÚV – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Sóknarnefnd fær styrk úr Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar til kirkjubyggingar í Grímsey, sem þó er aðeins lítill hluti þeirrar upphæðar sem þarf til að klára kirkjuna. Ljóst er að hún verður ekki kláruð í ár.

<>

Framkvæmdir við byggingu nýrrar kirkju í Grímsey halda áfram fljótlega. Kirkjan verður þó ekki kláruð á þessu ári. 12 milljóna styrkur fæst frá Þjóðkirkjunni í verkefnið á árinu.

Sagt var frá því í fréttum á dögunum að bygging kirkjunnar hefði verið sett á bið, þar sem fé til framkvæmdanna væri uppurið. Kirkjan er aftur á móti ekki orðið fokheld og því enn langt í land.

Mynd: RÚV

Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna í september 2021 og í framhaldinu ákváðu heimamenn að reisa nýja kirkju. Fimmtíu milljónir króna fengust til framkvæmdanna, með tryggingarfé og ríkisstyrk. Til viðbótar var sett af stað söfnun til að fjármagna kirkjubygginguna, sem áætlað var að myndi kosta á bilinu 103 til 120 milljónir króna.

Peningarnir eru hins vegar búnir og þegar hafa framkvæmdirnar kostað um 117 milljónir, að sögn Alfreðs Garðarssonar, formanns sóknarnefndar.

Mynd: RÚV

Í fréttum á laugardag sagði Svafar Gylfason, sóknarnefndarmeðlimur í Grímsey, að enn vantaði um fimmtíu til sextíu milljónir til að ljúka byggingu kirkjunnar.

Alfreð segir að sóknarnefndin hafi ákveðið að stöðva framkvæmdirnar tímabundið þar sem ekki hafi komið til greina að steypa kirkjunni í skuldir. Þó standi til að hefja framkvæmdir á ný fljótlega. Það verði sennilega hægt eftir 7. júní, þegar ferjan Sæfari hefur siglingar til Grímseyjar á ný.

Ferjan hefur verið í slipp í tvo mánuði og viðgerðir hafa tafist.

Fær 12 milljónir úr Jöfnunarsjóði
Byggingaframkvæmdum verður haldið eitthvað áfram í sumar og að sögn Alfreðs verður reynt að gera eins mikið og hægt er. Verkefnið fær tólf milljónir króna úr Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar á þessu ári. Nefndin sótti um styrkinn í fyrra og hann berst í fjórum greiðslum á þessu ári. Sú upphæð er þó bersýnilega aðeins lítill hluti af því sem þarf til að klára kirkjuna.

Mynd: RÚV

Alfreð segir að sóknarnefndin ætli að sækja aftur um styrk úr sjóðnum fyrir næsta ár.

Ef miðað er við að sama upphæð fengist á næsta ári væri samanlögð upphæð þessara tveggja ára innan við helmingur þess sem nú ert gert ráð fyrir að þurfi til að klára kirkjuna.

Alfreð segist ekki þora að segja til um hvenær hægt verði að ljúka verkinu, það fari allt eftir fjármagni.

„En hún verður ekki kláruð á þessu ári.“

Hann segist hættur að þora að fullyrða nokkuð um áætluð verklok en að það muni sannarlega miklu um þær fjárhæðir sem hafi safnast til verkefnisins.

„Það eru rosalega margir sem hafa styrkt okkur og við þökkum kærlega fyrir allan stuðninginn á árinu.“

Heimild: Ruv.is