Aðstaðan í Kerlingarfjöllum tekur stakkaskiptum þegar framkvæmdum upp á milljarða króna lýkur í sumar. Þar verður lúxushótel, en líka svefnpokapláss og tjaldsvæði, og þjónusta allan ársins hring.
Mikil breyting hefur orðið á aðstöðu fyrir ferðamenn í Kerlingarfjöllum. Þar rís lúxushótel með rými fyrir um 50 gesti. Þá verður svefnpokapláss fyrir um 30 manns og verið er að taka í gegn tjaldsvæðið. „Og svo er nýtt veitingahús sem verður opið fyrir alla,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla. „Allir eiga að geta komið í Kerlingarfjöll til frambúðar.“
Með dýrari framkvæmdum á hálendi Íslands
Kostnaðurinn við framkvæmdirnar er á bilinu tveir til þrír milljarðar. „Þetta er kannski stærsta einstaka fjárfesting á hálendi Íslands, fyrir utan virkjanir,“ segir Magnús Orri.
Skíðaskólinn lagðist af vegna hlýnunar
Breytt ásýnd og aðstæður í Kerlingarfjöllum eru skýrt dæmi um áhrif loftslagsbreytinga. Þar voru tólf jöklar fyrir rúmri öld. Jöklafræðingur telur að enginn verði eftir um næstu aldamót.
„Um aldamótin 1900 voru jöklarnir stærstir, þá hafa þetta verið 12 jöklar a.m.k. og 10 ferkílómetrar samanlagt. Svo hefur þetta verið stöðug afturför síðan,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, jöklafræðingur. Hann segir að áhrif loftslagsbreytinga vegi þar þyngst.
Skíðaskólinn í Kerlingarfjöllum var stofnaður árið 1961 og var starfræktur fram undir aldamót. Nú er búið að taka skíðalyfturnar niður, enda ekki nægur snjór í fjöllunum á sumrin til skíðaiðkunar.
„Ég spái því að um aldamótin næstu þá verði engir jöklar lengur í Kerlingarfjöllum, því miður,“ segir Ari Trausti.
Heimild: Ruv.is