Home Fréttir Í fréttum Ákærður öðru sinni á tveimur árum fyrir meiriháttar skattalagabrot

Ákærður öðru sinni á tveimur árum fyrir meiriháttar skattalagabrot

214
0
Mynd: RÚV – Eggert Þór Jónsson

Héraðssaksóknari hefur ákært fertugan karlmann fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri einkahlutafélags. Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem maðurinn er ákærður fyrir skattalagabrot.

<>

Fertugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti upp á 23,5 milljónir og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á tæpar 20 milljónir í rekstri verktakafyrirtækis í Kópavogi. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku.

Í ákærunni krefst héraðssaksóknari þess jafnframt að manninum verði bannað að stofna fyrirtæki eða koma með öðrum hætti að stjórnun félags í þrjú ár.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem maðurinn er ákærður fyrir skattalagabrot í rekstri verktakafyrirtækis.

Fyrir tveimur árum var hann ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Hann játaði sök fyrir dómi í fyrra eftir að kröfu hans um frávísun var hafnað. Hann var í framhaldinu dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða rúmar tólf milljónir í sekt.

Heimild: Ruv.is