Íbúð sem nú er í byggingu á Snorrabraut 62 hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Þar er ekki að finna svefnherbergi og grínast netverjar með að því verði hægt að lifa bíl-og bóllausum lífsstíl í íbúðinni en engin bílastæði fylgja húsinu. Framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Snorrahúss segir deiluskipulag hafa nauðbeygt byggingaraðila í að hafa íbúðina án svefnherbergis.
„Upphaflega hönnuðum við þessa íbúð þannig að það væri svefnherbergi í henni en fengum svö svör frá skipulagsyfirvöldum að það væri ekki í boði þar sem einungis 60 prósent íbúða í húsinu mættu vera tveggja herbergja íbúðir,“ útskýrir Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Snorrahúss.
Íbúðin sem um ræðir er númer 212 og var teikningum af íbúðinni deilt á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Hún er sú eina í húsinu sem ekki fylgir svefnherbergi. Íbúðin er 38 fermetrar að stærð og er uppsett verð 43,9 milljónir króna. Bað í íbúðinni er 6,2 fermetrar að stærð, stofa/eldhús/anddyri er 19,8 fermetrar að stærð og eru svalir síðan 5,6 fermetrar.
Áður hefur vakið athygli að engin sérmerkt bílastæði fylgja húsinu. 35 íbúðir eru í húsinu sem er á besta stað skammt frá Landspítalanum og miðbæ Reykjavíkur og er íbúðunum ætlað að höfða til fólks sem lifir bíllausum lífsstíl.
„Ef einhver er að finna að þessu hjá okkur, þá má bara benda honum á skipulagsyfirvöld,“ segir Kristinn sem bætir því við að Snorrahús hafi sótt um undanþágu vegna málsins, án árangurs.
„Raunverulega voru einu svörin sem ég fékk að ég gæti bara endurhannað húsið. Við höfum því miður ekki séð neinar skynsamar leiðir til þess að gera það, enda vorum við mjög sáttir við hönnunina og leystum þetta því svona.“
Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort verðið á íbúðinni sé of hátt?
„Verðlagning er frjáls og við stöndum og föllum með okkar verðlagningu. Markaðurinn virkar þannig að ef einhver verðleggur of hátt selur hann ekki eignina, í vaxtastigi í dag tekur markaðurinn grimmilega á móti honum. Að öðru leyti er verðlagning í samræmi við markaðsaðstæður og ég tel verðlag sé síst of hátt.“
Heimild: Visir.is