Home Fréttir Í fréttum Byggingarkostnaður lítillar íbúðar hefur hækkað um meira en sjö milljónir á innan...

Byggingarkostnaður lítillar íbúðar hefur hækkað um meira en sjö milljónir á innan við ári

141
0
Fátt bendir til þess að þörf fyrir íbúðarhúsnæði verði mætt hér á landi á naæstu árum. Ljósmynd: DV/Hanna

Hverfandi líkur eru á að markmið stjórnvalda um 30.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum náist. Byggingarkostnaður hefur stóraukist undanfarin misseri, ekki síst vegna vaxtahækkana Seðlabankans.

<>

Á afmælismálþingi Viðreisnar um húsnæðismál í morgun voru frummælendur sammála um að fyrirsjáanleiki væri nánast enginn og mikið vantaði upp á samstarf og samtal ríkis, sveitarfélaga og uppbyggingaraðila, til að takast á við sveiflur á þessum markaði. Þrátt fyrir að væntingar séu um 30.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum sé ekki útlit fyrir að það muni ganga eftir. Líkur séu á að framboð af nýju húsnæði muni verulega dragast saman eftir örfá ár sem muni leiða af sér annað stökk í hækkun fasteignaverðs.

Í upphafi málþingsins tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, til máls og vísaði til nýrrar tilkynningu um 125 punkta hækkun stýrivaxta. Enginn betri tími væri til að ræða húsnæðismál en í dag.

„Viðreisn var stofnuð til þess að eiga samtal um stóru myndina – um framtíðina. Við viljum ræða leiðir út úr vítahring séríslenskra vandamála. Sveiflur á húsnæðismarkaði eru sannarlega þar undir,“ sagði Þorgerður.

Sveiflur í uppbyggingu og verði íbúða á síðustu tveimur áratugum hafa skapað mikinn óstöðugleika á húsnæðismarkaði, að mati Önnu Guðmundu Ingvadóttur, aðstoðarforstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Við værum þó alltaf að fá betri gögn til að geta skipulagt enn betur uppbyggingu til framtíðar. Anna og Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, voru sammála um að eins og staðan er í dag sé ekki útlit fyrir að takast muni að byggja þær íbúðir sem þarf á næsta áratug samkvæmt mælingum HMS.

Gylfi Gíslason sýndi dæmi um hvernig byggingarkostnaður á lítilli íbúð hefur hækkað um hátt í 7 m.kr. frá því í júlí 2022. Þessi kostnaður væri þó vanmetinn, því að nýjar stýrivaxtahækkanir í morgun hækka þá tölu enn. Auk stýrivaxtahækkunar um 4,25 prósentustig hafi byggingarkostnaður hækkað um 6 prósent, boðuð hafi verið lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts og meðalsölutími lengst yfir í 50 daga.

Þessi aukni kostnaður við framkvæmdir og dýrar lóðir gerðu það að verkum að byggingaraðilar héldu nú að sér höndum í nýjum verkefnum. Hann telur afar ólíklegt að jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar á næstu árum án samstillts kreddulauss átaks.

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði, fjallaði um að þegar peningastefna er notuð til að örva hagkerfið þurfi mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum örvunaraðgerðanna á fasteignaverð. Einnig sé ástæða til að mæta sérstaklega láglaunahópum, þ.m.t. ungu fólki.

Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt og sérfræðingur í stefnumótun í skipulagsmálum, bar uppbyggingu á Íslandi saman við reynsluna frá Danmörku. Hún sýndi hvernig meðalstærð íbúða hefði minnkað á undanförnum árum og lagði áherslu á að skipulagsreglur þyrftu að gera kröfur um ákveðin gæði íbúða, m.a. hvað varðar birtu.

Heimild: DV.is