Home Fréttir Í fréttum Vill Fjarðaleið fremur en Fjarðarheiðargöng

Vill Fjarðaleið fremur en Fjarðarheiðargöng

100
0
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og fyrrverandi samgönguráðherra. SIGURJÓN ÓLASON

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og fyrrverandi samgönguráðherra vill breyta forgangsröðun jarðganga á Austfjörðum í þágu almannavarna. Í stað Fjarðarheiðarganga til Seyðisfjarðar verði svokölluð Fjarðaleið valin um Mjóafjörð.

<>

Sú stefnumörkun að fimmtíu milljarða króna jarðgöng undir Fjarðarheiði verði næst í röðinni er umdeild. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 kom fram að dómsmálaráðherra vill fremur T-göng um Mjóafjörð.

Þrenn göng sem kæmu saman í Mjóafirði telur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra þjóna best almannavörnum, heilbrigðisþjónustu og atvinnulífi Austurlands.
GRAFÍK/SARA RUT FANNARSDÓTTIR

Jón segir að Fjarðarheiðargöng yrðu lengstu göng á Íslandi og mjög dýr vegna þess að öryggissjónarmið í svo löngum göngum séu miklu dýrari heldur en í styttri göngum.

„Þannig kæmi kostnaðurinn út svipað, að taka í fyrsta áfanga þessi T-göng, það er að segja leiðina frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð, upp á Hérað og yfir á Neskaupstað,“ segir ráðherrann.

„Ég tel að þetta þurfi ekki að tefja framkvæmdir svo mikið fyrir austan. Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, var nú okkar helsti sérfræðingur á þessu sviði, og sagði mér að allar þær rannsóknir sem væri búið að vinna varðandi Fjarðarheiðargöng myndu nýtast ef hin leiðin væri farin vegna þess að fjöllin væru svona..- þetta væri hægt að bera þetta saman.

Ég tel að það eigi að hraða göngum fyrir austan. Ég tel það mjög mikilvægt og ég tel að það eigi að forgangsraða Fjarðaleiðina einmitt í dag, í þeirri stöðu sem ég er í, með tilliti til almannavarnasjónarmiða.“

Þennan valkost segir Jón að verði að skoða út frá öryggissjónarmiðum og telur að það hafi ekki verið gert í skýrslunni um Fjarðarheiðargöng á sínum tíma.

Jón lagði fyrir ríkisstjórn síðastliðinn föstudag minnisblað Almannavarna þar sem þessi sjónarmið eru reifuð. Hann vísar bæði til aurflóðanna á Seyðisfirði fyrir tveimur árum en einnig til snjóflóðanna í Neskaupstað í síðasta mánuði.

Snjóflóðahætta á Fagradal hindraði utanaðkomandi björgunarsveitir í að komast í Neskaupstað í síðasta mánuði.
SIGURJÓN ÓLASON

„Núna í þessu tilfelli með snjóflóðin þá vorum við í vandræðum með að koma utanaðkomandi björgunarliði til Neskaupstaðar. Við fluttum björgunarlið flugleiðis til Egilsstaða. Þar sat það fast og komst ekkert áfram vegna snjóflóðahættu á Fagradal.“

Jón telur gangaþrennu um Mjóafjörð einnig betri fyrir samfélagið á Austfjörðum.

„Fyrir byggðirnar er þetta líka miklu ríkari tenging í atvinnusvæðum og slíku. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að út frá svona heilbrigðissvæði, spítalinn er jú, héraðssjúkrahúsið er á Neskaupstað. Síðan er fólk að fara til vinnu í álverinu og laxeldi á milli fjarða. Þarna yrði komin bara í sjólínu tenging milli allra þessara svæða.“

Spurður hvort hann hafi rætt þetta við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra svarar Jón að Sigurður hafi verið meðvitaður um þetta sjónarmið.

„Við höfum nú tekið spjall um þetta á ríkisstjórnarfundi áður en ég lagði fram minnisblaðið af því að ég gerði grein fyrir þessu sjónarmiði strax eftir þessa atburði fyrir austan. Og ég held að honum þyki þetta bara athyglisverður vinkill á þessu máli.“

Og Jón vill jafnframt hraða jarðgangagerð í öðrum landshlutum.

„Bæði á Vestfjörðum, yfir á Súðavík, og við erum með frá Siglufirði yfir í Fljót. Það eru mörg verkefni sem bíða og þau þola ekkert mikla bið, þessi verkefni,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Heimid: Visir.is