Home Fréttir Í fréttum Ríkið vinni gegn í­búða­upp­byggingu

Ríkið vinni gegn í­búða­upp­byggingu

57
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri SI, segir afar óheppilegt að stjórnvöld horfi til byggingariðnaðar til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Framkvæmdastjóri SI segir það skjóta skökku við að ríkið sé að lækka endurgreiðsluhlutfall VSK vegna vinnu iðnaðarmanna á sama tíma og hvetja þarf til uppbyggingar.

<>

Ílok mars síðastliðins lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram frumvarp um lækkun endurgreiðsluhlutfalls VSK vegna vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35%. Í nýrri fjármálaáætlun er miðað við að breytingin taki gildi um mitt yfirstandandi ár.‏ Aðgerðin er m.a. rökstudd út frá því að hún minnki umsvif á byggingarmarkaði og dragi úr þenslu en ráðuneytið áætlar að lækkunin hækki byggingarkostnað um nærri 2%.

„Það fer auðvitað í þveröfuga átt við það sem við þurfum. Þetta hefur í för með sér kostnaðarauka sem dregur úr framboði fremur en að hvetja til uppbyggingar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Samtökin hafa varað við að útlit sé fyrir verulegum samdrætti í íbúðaruppbyggingu vegna hækkandi fjármagnskostnaðar. Sigurður furðar sig því á að ríkið fari fram með aðgerðir sem stuðli að frekari samdrætti á sama tíma og stjórnvöld eru að dempa eftirspurnarhliðina með hækkun vaxta og hertum lánþegaskilyrðum.

„Við viljum að framboð og eftirspurn nái saman á þessum markaði og skapi gott jafnvægi þar sem byggt er í takti við þarfir fólksins í landinu. Það næst ekki með því að draga úr uppbyggingu á sama tíma og við erum að reyna að halda lokinu á pottinum eftirspurnarmegin. Við viljum líka að fólki gefist kostur á því að eignast sitt eigið húsnæði. Á einhverjum tímapunkti hljótum við því að vilja geta aflétt aðgerðum á eftirspurnarhliðinni og einfaldað fólki að komast inn á markaðinn. Þetta bitnar auðvitað ekki síst á yngra fólki sem er að koma sér fyrir í lífinu.“

Hlutfallið aldrei farið undir 60% áður
Sigurður undrast einnig skamman fyrirvara aðgerðanna sem geri fyrirtækjum ómögulegt að skipuleggja sig út frá breyttum forsendum. „Þarna erum við að tala um verkefni sem taka oft um 2-3 ár en áformin voru kynnt með tveggja mánaða fyrirvara. Fyrirsjáanleikinn er enginn.“

Þá telur hann afar óheppilegt að stjórnvöld horfi til byggingariðnaðar til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Það vinni gegn stöðugleika á húsnæðismarkaði þar sem erfiðara er fyrir iðnaðinn að fjölga íbúðum í takt við fólksfjölgun og þörf. Einnig sé kostnaðarsamt fyrir fyrirtækin að þurfa að draga saman seglin og vaxa hratt þess á milli.

Við upptöku núverandi virðisaukaskattskerfis árið 1988, sem tók við af kerfi söluskatts, var gerð sú stefnumarkandi breyting að VSK lagðist á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað en þess í stað var ákveðið að hann yrði endurgreiddur til að sporna gegn hækkun á byggingarkostnaði. Sigurður bendir á að hlutfallið hafi síðan ýmist verið 60% eða 100% en aldrei farið undir þessi mörk áður.

„Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig þetta er framkvæmt. Verktakar þurfa að meta vinnuliðinn hjá sínum starfsmönnum, senda sér reikning og leggja skatt ofan á. Þetta tíðkast heilt yfir ekki í öðrum rekstri. Það má velta fyrir sér hvort það væri eðlilegra að ekki væri lagður virðisaukaskattur á vinnuliðinn heldur á íbúðarhúsnæðið við sölu. Stjórnvöld gætu þá beitt sér á eftirspurnarhliðinni ef þau vildu gera það.“

Heimild: Vb.is