Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Skrifað undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar

Skrifað undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar

299
0
Þóroddur Ottesen Arnarson, forstjóri ÍAV, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, handsala samninginn.

Vegagerðin og ÍAV hafa skrifað undir verksamning um tvöföldun Reykjanesbrautar (41) milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Tilboð voru opnuð 5. apríl en ÍAV bauð tæpa fjóra milljarða króna í verkið sem var talsvert undir áætluðum verktakakostnaði. Undirbúningur hefst strax en framkvæmdir á verkstað hefjast í sumar.

<>

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Þóroddur Ottesen Arnarson, forstjóri ÍAV, skrifuðu undir verksamning í húsnæði Vegagerðarinnar í Garðabæ í dag, 17. maí 2023.

Kort sem sýnir nokkra verkþætti.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tímamót enda klárast nú breikkun Reykjanesbrautar frá höfuðborgarsvæðinu og að Fitjum í Keflavík. Þessarar framkvæmdar hefur lengi verið beðið og Vegagerðin hefur lagt áherslu á að koma henni af stað. Einnig er mjög jákvætt að nú hyllir undir að kláraðar verði framkvæmdir við tvo slysamestu vegi landsins, annars vegar Suðurlandsveg og hins vegar Reykjanesbraut,“ segir Bergþóra.

„Við erum afskaplega ánægðir með þennan samning. Og okkur finnst sérstaklega skemmtilegt að fá að klára þennan áfanga sem ÍAV einmitt byrjaði á undir lok sjöunda áratugarins þegar vegurinn var styrktur fyrst,“ segir Þóroddur.

Mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mynd: Mannvit

Samstarfsverkefni margra aðila

Útboðið heitir; Reykjanesbraut (41-15), Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun. Í því felst lagning Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla og inni í verkinu er einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna.

Mislæg gatnamót við álverið í Straumsvík. Mynd:Mannvit

Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mislæg gatnamót við Straumsvík verða stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu. Einnig verða gerðir eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut og stofnstígur fyrir gangandi og hjólandi milli Hraunavíkur og Straums ásamt tengingu við Straumsvík.

Verktakinn mun hefja undirbúning fljótlega en framkvæmdir hefjast af krafti síðsumars 2023. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið í lok júní 2026.

Þeim sem vilja kynna sér verkið nánar er bent á myndband um framkvæmdina hér að neðan:

Breikkun Reykjanesbrautar 2023

Heimild: Vegagerðin.is