Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samið um nýtt gervigras á Fellavöll á Egilsstöðum

Samið um nýtt gervigras á Fellavöll á Egilsstöðum

97
0
Mynd: Austurfrett.is

Íþróttafélagið Höttur mun taka að sér að leggja nýtt gervigras á Fellavöll, samkvæmt samningi við Múlaþing. Þar með er farin svipuð leið og gert var við byggingu fimleikahússins á Egilsstöðum.

<>

„Frumkvæðið kom frá Hetti og það var mikil jákvæðni fyrir því þar sem samstarfið hefur verið mjög gott. Uppbygging fimleikahússins gekk mjög vel,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Á fimmtudag var skrifað undir tvo samninga, annars vegar milli Múlaþings og Byggingafélags Hattar, sem er í eigu íþróttafélagsins, um framkvæmdina og hins vegar við Altis um gervigrasið sjálft.

Sveitarfélagið leggur fram 112 milljónir, en reiknað er með að 10 milljónir af þeim fáist sem styrkur úr mannvirkjasjóði Knattspyrnusambands Íslands.

Veigamesta framkvæmdin er að skipta út gervigrasinu á Fellavelli sem orðið er slitið eftir 15 ára notkun. Aðkomunni að vellinum verður breytt, gervigrassið stækkað til að auka öryggi keppenda, settar girðingar umhverfis völlinn til að stýra umferð inn á hann og þar með álagi um leið og nýir göngustígar verða gerðir til að bæta aðkomu áhorfenda. Þá er gert ráð fyrir að koma upp vatnsúðarakerfi fyrir grasið. Framkvæmdir eiga að hefjast 1. júlí og vera lokið 20. september.

Sem fyrr segir hafa sveitarfélagið og Höttur áður átt í samstarfi við byggingu fimleikahússins sem opnað var haustið 2020. Sjálfboðaliðar innan félagsins og velunnarar starfsins lögðu þar sitt af mörkum með að vinna án endurgjalds eða með afslætti til að lækka kostnað við bygginguna þannig hún yrði að veruleika.

Tryggir að verkið verði klárað í sumar

Samstarfinu nú er einnig ætlað að koma verkefninu hraðar áfram. „Sveitarfélagið var búið að taka frá fjármagn en með þess ætti grasið að verða tilbúið strax í sumar og vonandi sparast eitthvað. Það er ánægjulegt að íþróttafélagið sé með í ráðum um framkvæmdir við íþróttamannvirki,“ segir Lísa Leifsdóttir, formaður Hattar.

„Það var mikill samtakamáttur þegar fimleikahúsið reis, fólkið í bænum lagði til mikla sjálfboðavinnu og það hélst innan kostnaðaráætlunar. Knattspyrnudeildin mun leggja til sjálfboðavinnu en einnig leita til aðila um að leggja okkur lið. Þetta er vissulega öðruvísi framkvæmd en á líka að verða öllum til góða,“ segir hún.

„Það var mikill áhugi fyrir þessari leið hjá íþróttafélaginu. Þar er mikil metnaður fyrir áframhaldandi uppbyggingu og miðað við fyrri samskipti hef ég trú á að við komumst jafnvel fyrr í ákveðin verkefni með þessu móti. Ég hef fundið í samskiptum við það fólk sem stýrir Hetti að það hefur mikinn metnað sem ég hef trú á að skili sér inn í þetta verkefni,“ segir Björn.

Vallarhús og deiliskipulag

Hvatinn fyrir Hött að halda verkefninu innan áætlunar er þó nokkur. Félagið hefur að undanförnu kynnt fyrir sveitarfélaginu tillögu um að bæta aðstöðuna við Fellavöll með að byggja nýja hæð ofan á núverandi vallarhús. Múlaþing mun leggja 11 milljónir til þess verkefnis auk þess sem gengur af við að leggja gervigrasið. Þá er í samningnum ákvæði um að Múlaþing ljúki við gerð deiliskipulags fyrir nýtt íþróttasvæði á Egilsstöðum samhliða framkvæmdunum.

Heimild: Austurfrett.is