Home Fréttir Í fréttum Vopnfirðingar skipuleggja nýjan miðbæ í gömlum stíl

Vopnfirðingar skipuleggja nýjan miðbæ í gömlum stíl

154
0
Ný miðbær myndar tengsl við sjóinn og fjöruna. Úr skipulagstillögu – Yrki arkitektar

Vopnfirðingar eru búnir að láta hanna nýjan miðbæ í þorpinu. Samkvæmt skipulaginu gætu olíutankar vikið fyrir snotrum fjölbýlishúsum í gömlum stíl.

<>

Á Vopnafirði hefur gamli miðbærinn fyrst og fremst verið athafnasvæði fyrirtækja og hefur yfir sér iðnaðarbrag. Þar eru reyndar nokkrar perlur eins og Kaupvangur frá árinu 1882 en gömul hús hafa vikið og tvö þeirra voru flutt á Árbæjarsafn í Reykjavík.

Sveitarfélagið hefur nú ásamt Yrki Arkitektum hannað nýjan miðbæ í stíl gömlu húsanna og er skipulagstillaga tilbúin. Markmiðið er að svæðið verði vistlegt og aðlaðandi.

„Við erum aðallega að búa til meiri torgmynd af bænum. Eins og þetta er í dag þá er atvinnusvæði að blandast við gamla miðbæinn. Þar sem þetta er unnið í samræmi við verndarsvæðið sem við erum að auglýsa á sama tíma þá er þetta að vernda þessar gömlu byggingar og leyfa gamla útlitið aftur og búa til torgsvæði,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri á Vopnafirði.

Betri upplifun fyrir íbúa og gesti
Ljóst er að nýja skipulagið er framtíðarsýn og draumur sem á eftir að rætast á löngum tíma. Heimilt yrði að rífa olíutanka og einnig viðbyggingar við gömlu mjólkurstöðina og byggja ný hús í gömlum stíl.

„Það er verið að leyfa þá verslun og þjónustu í þessum húsum og eins íbúðir. Ef til þess kemur að olíutankarnir fara þá verða íbúðir þar og eins á efri hæðunum á verslununum sem verða hér á torginu. Ég held að það sé alltaf gaman fyrir íbúa og gesti að það sé góð miðbæjarstemning. Eins konar miðja sem stuðlar að uppbyggingu atvinnulífsins og fleira,“ segir Sara Elísabet.

Heimild: Ruv.is