Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur hafnað ósk eiganda hússins Bergstaðastrætis 4 um að rífa húsið og byggja fjögurra hæða hús á lóðinni. Hér kemur til hið sígilda mat um hvort gamalt eigi að víkja fyrir nýju.
Flestir borgarbúar kannast við húsið Bergstaðastræti 4. Það stendur gegnt Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og skáhallt á móti Kaffibarnum. Húsin á lóðinni Bergstaðastræti 4 voru byggð 1912 og teljast því aldursfriðuð samkvæmt lögum um menningarminjar.
Húsinu á norðurhluta lóðarinnar hefur eitthvað verið breytt í gegnum tíðina, hækkað um eina hæð, þaki breytt og byggt við árið 1930. Upphaflega er þetta hús sagt steinsteypt einlyft verksmiðjuhús með mænisþaki, en er núna tvílyft með skúrþaki og hefur verið klætt að utan, að því er fram kemur í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.
Veitingarekstur í húsinu
Upphaflega var eldsmiðja í húsinu en margvísleg starfsemi hefur verið þar í gegnum áratugina, t.d. gullsmíðaverkstæði, tískuvöruverslunin Kastalinn og Wok Shop. Á seinni árum hefur verið veitingastarfsemi í húsinu. Má þar nefna Matarkistuna, sælkerabúð Sigurveigar og Súpu Reykjavík. Engin starfsemi er þar í dag.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, 11. maí
Heimild: Mbl.is