Home Fréttir Í fréttum Umferð hleypt á nýja veginn um Ölfus á næstu dögum

Umferð hleypt á nýja veginn um Ölfus á næstu dögum

129
0
Ágúst Jakob Ólafsson er yfirverkstjóri ÍAV í Suðurlandsvegi um Ölfus. SIGURJÓN ÓLASON

Nýr kafli hringvegarins milli Hveragerðis og Selfoss er að verða tilbúinn, nærri þremur mánuðum á undan áætlun, og er stefnt að því að önnur akrein síðasta áfangans verði opnuð umferð í lok vikunnar og hin akreinin í næstu viku.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var greint frá stöðu verksins. Íslenskir aðalverktakar hófu þennan verkáfanga fyrir þremur árum og var síðasti kaflinn malbikaður í byrjun vikunnar. Lengst af unnu um fimmtíu manns í verkinu en starfsmönnum hefur núna fækkað niður í fimmtán á lokametrunum.

Horft í átt til Selfoss og Ölfusár. Kögunarhóll efst til vinstri.
SIGURJÓN ÓLASON

„Þetta hefur gengið vel. Við erum svona aðeins á undan áætlun,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóri hjá ÍAV.

Þannig stóð ekki til að hleypa umferð á vegarkaflann fyrr en í ágúst. Núna er séð að það gerist tveimur til þremur mánuðum fyrr. Örfá viðvik eru eftir áður en hægt verður að opna, eins og að ganga frá víravegriðum, setja upp síðustu umferðarskiltin og mála yfirborðsmerkingar á akbrautina.

Við Kotströnd verða akstursgöng undir veginn.
SIGURJÓN ÓLASON

„Væntanlega opnum við akgreinina hérna til Reykjavíkur, frá Selfossi til Reykjavíkur, vonandi seinni partinn í vikunni, föstudag – laugardag, eitthvað svoleiðis.“

Í næstu viku verður svo opnað í hina áttina.

„Seinni partinn í næstu viku, það ætti að vera hægt,“ segir yfirverkstjórinn.

Útskot með ljósastaurum skammt austan Kotstrandar verða fyrir umferðareftirlit.
SIGURJÓN ÓLASON

Og síðar í mánuðum er svo stefnt á formlega borðaklippingu.

Nýir vegir eru samtals 12,4 kílómetra langir. Af þeim eru þó aðeins 7,2 kílómetrar á hringveginum, 5,2 kílómetrar eru nýir sveitavegir og þangað fer traktorsumferðin.

„Nú er kominn sérvegur sem heitir Ölfusvegur, frá Hveragerði og inn á Selfoss, fyrir hægari umferð. Og líka fyrir gangandi og hjólandi. Það eru sérakreinar fyrir gangandi og hjólandi.“

Nýr sveitavegur, Ölfusvegur, ásamt nýrri brú yfir Gljúfurá hjá Gljúfurárholti.
SIGURJÓN ÓLASON

Gatnamótum inn á hringveginn mun snarfækka. Lykilatriðið er bætt umferðaröryggi.

„Stóreykur öryggið. Nú eru orðnar aðskildar leiðir hérna, aðskildar akreinar. Nú eru komnar hérna bæði brýr og undirgöng, bæði fyrir menn og dýr. Tvenn reiðgöng og fimm brýr, þar af eru tvær vegbrýr sem eru fyrir mislæg gatnamót. Þannig að þetta stóreykur öryggi,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóri ÍAV.

Heimild: Visir.is