Þumalfingurreglan í flugvallarbransanum er að fyrir hverja milljón farþega sem fara um flugvelli á ári þurfi um eitt þúsund starfsmenn. Í fyrra fóru um 4,8 milljónir farþega um Leifsstöð og starfsmenn er um 5000 þúsund. Á þessu ári stefnir í að farþegum fjölgi um eina og hálfa milljón og samkvæmt reglunni kallar það á um 1500 nýja starfsmenn. Fyrirtækin sem tengjast flugrekstrinum hafa gert sér grein fyrir þessum í nokkurn tíma. Í nóvember sögðum við frá því að fjölga þyrfti um 1500 manns vegna aukinnar umferðar um völlinn. Fyrirtækin sem þjónusta vélarnar verða að fjölga, sjálf flugfélögin, Isavía og fyrirtækin sem reka verslanir í fríhöfninni.
Ráða rösklega 200 Pólverja
Flugafgreiðslufyrirtækin á Keflavíkurflugvelli eru nú í óð og önn að undirbúa vorið og sumarið. Hjá IGS sem er dótturfyrirtæki Icelandair starfa um 600 manns. Þeir þurfa að fjölga um 400. Þeir hafa í nokkur ár ráðið Pólverja til starfa og sama leið verður farin í ár. Búið er að ráða rétt tæplega 150 Pólverja sem koma hingað á næstunni, þó ekki allir í einu.
Hitt þjónustufyrirtækið Airport Associates, áður Flugvallavinir stefnir að því að fjölga um rúmlega 300 starfsmenn á næstunni. Í fyrrasumar voru starfsmenn 300 en fækkaði í vetur í 200 þannig að í sumar verða þeir komnir í 500. Þeir eins og IGS hafa leitað til Póllands og eru búnir að ráða rúmlega 70 Pólverja.
„Það einfaldlega vegna þess að á þessu svæði er ekki til nóg af mannskap,“segir Sigþór Kristinn Skúlason framkvæmdastjóri Airport Associates.
Útlendingar í fyrrum varnarliðsblokkir
Allir sem ráðnir eru til starfa á Keflavíkurflugvelli verða að standast stífar öryggiskröfur m. a. verður sakavottorðið að vera hreint. En það þarf að koma mannskapnum fyrir og þess vegna hafa menn litið til gamla varnarsvæðisins þar sem nóg er af tómu húsnæði. IGS eða Icelandair group er við það að kaupa tvær blokkir sem áður hýstu bandaríska fótgönguliða. Kaupsamningur liggur fyrir og ef allt gengur eftir verður bráðlega byrjað að gera húsin klár. Airport Associates fer sömu leið. Hefur þegar keypt eina blokk og í þann mund að kaupa aðra.
Fjölgun áfram
Fleiri íhuga að standsetja blokkir fyrir flugvallarstarfsmenn bæði erlenda og innlenda. Cadeco sem heldur um fyrrum eignir varnarliðsins íhugar að reka hugsanlega eina eða fleiri starfsmannablokkir. Niðurstaðan er að minnsta kosti 4 til 5 varnarliðsblokkir verða í boði fyrir flugvallarstarfsmenn á næstunni. Og farþegafjölgunin mun halda áfram á næsta ári, hugsanlega um 25 til 30 %.
Heimild: Rúv.is