Home Fréttir Í fréttum Telja öryggi landsmanna ógnað með uppbyggingu í Skerjafirði

Telja öryggi landsmanna ógnað með uppbyggingu í Skerjafirði

59
0
Frá flugvellinum í Vatnsmýri. RÚV

Öryggi landsmanna er ógnað með fyrirhugaðri uppbyggingu í Skerjafirði í Reykjavík að mati Sjálfstæðismanna víða um land. Þeir krefjast þess að ákvörðun sé tekin um framtíð Reykjavíkurflugvallar áður en ráðist er í framkvæmdir í Skerjafirði.

<>

Sjálfstæðismenn um landið ætla að skera upp herör gegn fyrirhugaðri íbúðauppbyggingu í Skerjafirði í Reykjavík. Þeir telja áformin vega að öryggi landsmanna og að þau setji framtíð Reykjavíkurflugvallar í uppnám.

Oddvitar Sjálfstæðismanna í fjórtán sveitarfélögum víða um land standa fyrir ályktun þessa efnis. Í henni segir að fyrirhuguð uppbygging í Skerjafirði vegi að framtíð og öryggi landsmanna gagnvart sjúkraflugi og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg ákváðu í síðustu viku að hafist yrði handa við jarðvegsframkvæmdir í Skerjafirði eftir að starfshópur á vegum ráðherra taldi áformin ekki stofna rekstaröryggi Reykjavíkurflugvallar í hættu.

Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í Fjarðarbyggð segir að enn á ný sé verið að byrja á öfugum enda þegar kemur að innanlandsflugi og framtíð Reykjavíkurflugvallar.

„Það er ekki búið að finna nýjan stað og samt er áfram verið að gera óafturkræfar framkvæmdir og ákvarðanir sem skerða flugmöguleika og flugrekstur innanlandsflugsins.“

Bindur vonir við fleiri sveitarfélög í málinu
Farið er fram á að staðið sé við samkomulag sem gert var á milli ríkis og borgar 2019 um að skoða möguleika á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni áður en ráðist er í uppbyggingu í Skerjafirði. Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að ákveða hvort flugvöllur verði byggður í Hvassahauni fyrir lok næsta árs.

Ragnar segir að heilbrigðisþjónusta víða um land byggist á því að aðgangur sé að sjúkraflugi þar sem ekki er tryggur aðgangur að bráðaþjónustu.

„Þetta er líka aðgengi okkar. Bæði atvinnulífsins, íbúanna og stjórnsýslunnar að öllum innviðum höfuðborgarsvæðisins.“

Þið ætlið að leggja þetta fyrir sveitarstjórnir núna í vikunni, hvaða móttökum búist þið við?

„Ég held að þetta verði alls staðar samþykkt og ég bara bind vonir við að fleiri sveitarfélög bætist í hópinn,“ segir Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í Fjarðarbyggð.

Heimild: Ruv.is