Home Fréttir Í fréttum Ný Þjórsárbrú við Árnes gæti farið í útboð í haust

Ný Þjórsárbrú við Árnes gæti farið í útboð í haust

330
0
Teikning af fyrirhugaðri brú yfir Þjórsá. Horft er til norðurs, frá Rangárvallasýslu yfir í Árnessýslu. VEGAGERÐIN

Ný brú yfir Þjórsá á móts við þorpið Árnes er núna á lokastigi hönnunar og gæti farið í útboð í haust. Brúin styttir vegalengdir um tugi kílómetra milli efstu byggða í Árnes- og Rangárvallasýslu en brúarsmíðin er hluti af vegagerð Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar.

<>

„Þó þessi vegur tengist framkvæmdum Landsvirkjunar á svæðinu þá verður það Vegagerðin sem kemur til með að bjóða verkið út og hafa með því umsjón,“ segir Einar Már Magnússon, verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar.

Horft niður Þjórsá.
VEGAGERÐIN

Brúin verður rúmlega tvöhundruð metra löng og byggð skammt ofan við fossinn Búða. Til að tengja hana við þjóðvegakerfið verður lagður 7,4 kílómetra langur vegur, sem kemur til með að heita „Búðafossvegur“. Norðanmegin tengist hann Þjórsárdalsvegi skammt vestan við félagsheimilið Árnes og sunnanmegin tengist hann við Landveg skammt frá bænum Minni-Völlum.

Fyrirhugaður Búðafossvegur mun tengjast Þjórsárdalsvegi á móts við þorpið Árnes lengst til vinstri. Hægra megin mun nýi vegurinn tengjast Landvegi milli bæjanna Minni-Valla og Flagbjarnarholts. VEGAGERÐIN

„Við reiknum með að bjóða út vegagerðina og brúarsmíðina í einu útboði sem verður sennilega haustið eða veturinn 2023,“ segir Einar Már.

Vegagerðin vonast til að hönnun brúarinnar ljúki núna í maímánuði og eru meðfylgjandi teikningar birtar með fyrirvara um að þær gætu breyst, til dæmis við athuganir á straumhraða og byggingaraðferð. Vegagerðin stefnir þó að því að sækja um framkvæmdaleyfi í sumar þegar endanleg gögn eru tilbúin og búið að yfirfara þau, að sögn Einars Más.

Svona er áætlað að brúin líti út þegar horft er upp eftir ánni.
VEGAGERÐIN

Landsvirkjun fékk virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun frá Orkustofnun í nóvember og sótti í framhaldinu um framkvæmdaleyfi til viðkomandi sveitarstjórna, Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ráðamenn beggja sveitarfélaga hafa gefið það út að stefnt sé að ákvörðun um framkvæmdaleyfi núna í maímánuði.

Horft til suðurs, úr Árnessýslu yfir í Rangárvallasýslu.
VEGAGERÐIN

Það hefur lengi verið draumur Sunnlendinga að fá brú yfir Þjórsá á móts við þorpið Árnes. Með slíkri brú yrði aðeins sjö kílómetra leið fyrir íbúana þar til að heilsa upp á næstu nágranna sína handan ár í Rangárvallasýslu, í stað þess að aka sextíu kílómetra leið. Brúin gæti þannig haft mikla þýðingu fyrir samgöngur og ferðaþjónustu í uppsveitum Suðurlands.

Nýja Þjórsárbrúin kæmi fyrir ofan eyjuna Árnes og fossinn Búða. GRAFÍK/HAFSTEINN ÞÓRÐARSON

Heimild: Visir.is