„Það eru mikil vonbrigði að það eigi að hefja framkvæmdir við nýja byggð í Skerjafirði þegar það liggur fyrir að það hefur neikvæð áhrif á rekstur og öryggi Reykjavíkurflugvallar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Eins og innviðaráðherra hefur sagt þá liggur fyrir að flugvöllurinn verður mikilvægur fyrir innviði landsins næstu áratugina, bæði sem miðstöð innanlandsflugs og varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Á undanförnum árum hefur verið þrengt að vellinum með byggingum og því er mikilvægt að ekki verði stigin frekari skref í þá átt.
Við treystum því að stjórnvöld, Reykjavíkurborg og Isavia hafi gott samráð við flugrekstraraðila á flugvellinum áður en óafturkræfar framkvæmdir verða settar í gang sem hafa áhrif á öryggi og rekstrarhæfi.“
Í nýútgefinni skýrslu um flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar segir að byggð í Skerjafirði myndi að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa tekið ákvörðun um að hafist verði handa við jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is