Home Fréttir Í fréttum Ofanflóðavarnir á Flateyri ekki háðar mati á umhverfisáhrifum

Ofanflóðavarnir á Flateyri ekki háðar mati á umhverfisáhrifum

32
0

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að áframhaldandi framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Flateyri skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Stefnt er að framkvæmdum í sumar og að heildarverktími verði þrjú ár.

<>

Það var í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri í janúar 2020 sem Ofanflóðasjóður óskaði eftir greiningu á hvort og hvernig efla mætti varnir ofan byggðarlagsins. Árið eftir skilaði Verkís tillögum að nokkrum verkefnum og lauk fyrstu áföngum haustið 2021.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur fram að í sumar sé stefnt að framkvæmdum við áframhaldandi eflingu varnanna og áætlað að verkið taki þrjú ár.

Reistar verða keilur og varnargarðar endurbyggðir

Reistar verða 27 keilur í þremur röðum ofan við núverandi varnargarða og verður hæð hverrar keilu 10-11 metrar. Efla þarf varnarfleyg ofan Sólbakka og verður núverandi varnarfleygur efldur með landmótun og uppbyggingu á 5-16 metra háum leiðigarði.

Núverandi þvergarður verður endurbyggður og hækkaður úr 10 í 15 metra og hafnarsvæðið verður varið með keilum ofan vegar. Til viðbótar verður reistur 5-7 metra hár og brattur hafnargarður sem beina á flóðstraumi frá höfninni. Þá verða flóðrásir við varnargarða hreinsaðar og dýpkaðar til að tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram þeim.

Tvö snjóflóð ollu miklum skemmdum í janúar 2020

Tvö snjóflóð féllu á Flateyri veturinn 2020. Það fyrra féll úr Skollahvilft og olli verulegu tjóni í höfninni. Seinna flóðið féll úr Bæjargili og fór að hluta yfir snjóflóðavarnargarðinn ofan byggðarlagsins og á eitt hús.

Heimild: Ruv.is