Stefnt er að því að nýbygging sem rísa á við Grensásdeild Landspítalans verði tekin í notkun á árinu 2027. Hún er fjármögnuð af ríkinu og er kostnaður áætlaður 3,4 milljarðar króna. Ný legudeild, borðsalur, meðferðarrými fyrir iðju- og talþjálfun og sjúkraþjálfunareining bætast við deildina. Nýja byggingin á að rísa vestan við núverandi byggingu og tengjast henni.
Í dag eru fimmtíu ár frá því Grensásdeildin var opnuð en hún hefur sinnt endurhæfingu um 50 þúsund Íslendinga á þeim tíma. Guðrún Pétursdóttir, formaður Hollvina Grensáss, segir að um mikla framför verði að ræða. Nýja húsið verður 3.800 fermetrar að stærð og gjörbreytir aðstæðum til þjálfunar af öllu tagi, auk þess sem fjöldi einstaklingsherbergja með baði fer úr 14 í 33.
Ekkert hefur verið byggt við Grensásdeildina í hálfa öld fyrir utan sundlaug sem var tekin í notkun 1985. Á sama tíma hefur íbúafjöldi landsins meira en tvöfaldast og eftirspurn eftir endurhæfingu farið vaxandi, m.a. vegna framfara í bráðalækningum. Fleiri lifa af erfið áföll en áður. Sigríður Guðmundsdóttir deildarstjóri segir að með nýbyggingunni sé í raun verið að stíga loks inn í 21. öldina. Aðstæður á deildinni í dag séu um margt frumstæðar. Ekkert súrefni sé í veggjum heldur sé það geymt í kútum og ekkert rennandi vatn sé inni á herbergjum sjúklinga.
Núverandi húsnæði þykir ekki lengur boðlegt. Gert er ráð fyrir að endurhönnun á eldri byggingunni hefjist í kjölfar þess að framkvæmdir byrja. Þeirri byggingu verður breytt í áföngum samhliða því að hafin verður starfsemi í nýbyggingunni en kostnaður við þann áfanga liggur ekki fyrir. Guðrún bendir á að í dag sé þjálfunarrými allt of þröngt og standi starfseminni fyrir þrifum. „Það er mikilvægt að fólk komist að í endurhæfingu strax og það hefur styrk til.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is