Home Fréttir Í fréttum Byggt við Grensásdeild Landspítala

Byggt við Grensásdeild Landspítala

141
0
Tölvumynd af væntanlegri nýbyggingu Grensásdeildar Landsspítala. Tölvuteikning/Nordic Office of Architecture

Stefnt er að því að ný­bygg­ing sem rísa á við Grens­ás­deild Land­spít­al­ans verði tek­in í notk­un á ár­inu 2027. Hún er fjár­mögnuð af rík­inu og er kostnaður áætlaður 3,4 millj­arðar króna. Ný legu­deild, borðsal­ur, meðferðarrými fyr­ir iðju- og talþjálf­un og sjúkraþjálf­un­ar­ein­ing bæt­ast við deild­ina. Nýja bygg­ing­in á að rísa vest­an við nú­ver­andi bygg­ingu og tengj­ast henni.

<>

Í dag eru fimm­tíu ár frá því Grens­ás­deild­in var opnuð en hún hef­ur sinnt end­ur­hæf­ingu um 50 þúsund Íslend­inga á þeim tíma. Guðrún Pét­urs­dótt­ir, formaður Holl­vina Grens­áss, seg­ir að um mikla fram­för verði að ræða. Nýja húsið verður 3.800 fer­metr­ar að stærð og gjör­breyt­ir aðstæðum til þjálf­un­ar af öllu tagi, auk þess sem fjöldi ein­stak­lings­her­bergja með baði fer úr 14 í 33.

Ekk­ert hef­ur verið byggt við Grens­ás­deild­ina í hálfa öld fyr­ir utan sund­laug sem var tek­in í notk­un 1985. Á sama tíma hef­ur íbúa­fjöldi lands­ins meira en tvö­fald­ast og eft­ir­spurn eft­ir end­ur­hæf­ingu farið vax­andi, m.a. vegna fram­fara í bráðalækn­ing­um. Fleiri lifa af erfið áföll en áður. Sig­ríður Guðmunds­dótt­ir deild­ar­stjóri seg­ir að með ný­bygg­ing­unni sé í raun verið að stíga loks inn í 21. öld­ina. Aðstæður á deild­inni í dag séu um margt frum­stæðar. Ekk­ert súr­efni sé í veggj­um held­ur sé það geymt í kút­um og ekk­ert renn­andi vatn sé inni á her­bergj­um sjúk­linga.

Nú­ver­andi hús­næði þykir ekki leng­ur boðlegt. Gert er ráð fyr­ir að end­ur­hönn­un á eldri bygg­ing­unni hefj­ist í kjöl­far þess að fram­kvæmd­ir byrja. Þeirri bygg­ingu verður breytt í áföng­um sam­hliða því að haf­in verður starf­semi í ný­bygg­ing­unni en kostnaður við þann áfanga ligg­ur ekki fyr­ir. Guðrún bend­ir á að í dag sé þjálf­un­ar­rými allt of þröngt og standi starf­sem­inni fyr­ir þrif­um. „Það er mik­il­vægt að fólk kom­ist að í end­ur­hæf­ingu strax og það hef­ur styrk til.“

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Heimild: Mbl.is