Home Fréttir Í fréttum Ástrós ráðin fjármálastjóri Íþöku

Ástrós ráðin fjármálastjóri Íþöku

159
0
Ástrós hefur áður unnið í bankageiranum í átján ár. Ljósmynd: Aðsend mynd

Ástrós Björk Viðarsdóttir ráðin fjármálastjóri fasteignafélagsins Íþöku.

<>

Ástrós Björk Viðarsdóttir hóf störf sem fjármálastjóri fasteignafélagsins Íþöku ehf. um síðastliðin áramót. Ástrós er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, próf í verðbréfaviðskiptum og á stutt í að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði.

Áður hafði Ástrós unnið í bankageiranum í átján ár, þar sem hún vann með fjölmörgum fyrirtækjum, þar á meðal ýmsum stórum fasteignafélögum. Ástrós hóf störf í Landsbankanum árið 2004.

„Ég myndi lýsa mér sem einskonar nörd í fasteignum. Ég hef alltaf haft gríðarlega mikinn áhuga á fasteignabransanum og þekki hann vel. Í fyrri störfum hef ég unnið náið með fasteignafélögum en nú er ég komin hinum megin við borðið sem er þó ekki ósvipað að mörgu leyti. Ég hef mikla trú á því að ég geti sinnt þessu starfi vel og að reynsla mín í viðskiptum við fasteignafélög muni nýtast vel í starfi. Það eru mörg stór og spennandi verkefni á döfinni hjá Íþöku sem ég er tilbúin til að takast á við,” segir Ástrós.

„Víðtæk reynsla Ástrósar mun nýtast félaginu vel við að takast á við þessar áskoranir”

Hún vann fyrstu árin í greiningardeild bankans og svo á fyrirtækjasviði þar sem hún kom meðal annars að skráningu fasteignafélagsins Regins á markað. Árið 2013 færði Ástrós sig yfir á fyrirtækjasvið Arion Banka þar sem hún vann meðal annars með fasteignafélaginu Reitum.

„Við erum búin að fá mjög öfluga konu með mikla leiðtogahæfileika og fjármálaþekkingu inn í teymið okkar hjá Íþöku sem mun koma sér vel fyrir félagið. Það eru ýmsar áskoranir framundan í íslensku samfélagi, verðbólga er há og vextir ekki á niðurleið á næstunni ef að líkum lætur. Víðtæk reynsla Ástrósar mun nýtast félaginu vel við að takast á við þessar áskoranir,” segir Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri Íþöku ehf.

Heimild: Vb.is