Home Fréttir Í fréttum Tímamót í viðskiptum með fasteignir

Tímamót í viðskiptum með fasteignir

92
0
Nú þarf ekki lengur að fara með afsal til sýslumanns til að hægt sé að þinglýsa því. Aron Eiríksson fasteignasali segir að um stórt framfaraskref sé að ræða. VÍSIR/FÉLAG FASTEIGNASALA/VILHELM

Eftir margra ára undirbúning er fyrsta rafræna þinglýsingin í fasteignaviðskiptum orðin að veruleika. Fyrsta afsalinu var þinglýst rafrænt fyrir helgi og gert er ráð fyrir að rafrænar þinglýsingar á kaupsamningum komi með haustinu. Fasteignasali segir að um mikla búbót sé að ræða og að starfsgreinin sé ekki í hættu.

<>

Aron Eiríksson, fasteignasali á Ás fasteignasölu, sá um að þinglýsa fyrsta afsalinu. Hann segir að um virkilega stórt skref sé að ræða fyrir fasteignaviðskipti í heild sinni.

„Mikið framfaraskref. Bót sem ég held að svona flestir landsmenn séu farnir að kalla eftir, svona í ljósi þess að það er alveg gríðarlega mikið af hlutum orðnir rafrænir í dag. Þannig við erum bara virkilega spennt að taka næstu skref í þessu, fara með þetta lengra.“

Næst á döfinni er að geta þinglýst kaupsamningum rafrænt og gert er ráð fyrir því að það komi með haustinu. Verið er síðan að vinna að því að geta þinglýst öllum skjölum er varða fasteignasviðskipti.

„Þetta er náttúrulega hellingur af skjölum sem þarf að þinglýsa þannig þetta er stórt og flókið verkefni. Það þarf að þinglýsa umboðum, forgangsréttum, kaupsamningum, afsölum, lánaskjölum, veðflutningum – þetta er gríðarlega stór pakki. Afsalið er svona einfaldasti hlutinn í viðskiptunum af því þetta er lokapunkturinn og bara eitt skjal. Núna tekur flóknari kafli við.“

Störf fasteignasala séu ekki í hættu

Aron óttast ekki að fasteignasalar verði úreltir með þessari rafrænu þróun. Þrátt fyrir að skjalavinnslan verði á endanum öll rafræn þá telur hann að enn verði þörf á fasteignasölum til að sinna öðrum flóknum hlutum er varða fasteignaviðskipti.

„Þegar það eru til dæmis keðjur sem myndast í kringum fasteignaviðskipti þá er þetta flókið, það mun ekki breytast þegar rafrænu hlutirnir fara í gang. Fólk þarf að afhenda á ákveðnum tíma, það er veðflutningur hér og nýtt lán þar. Ég hugsa að það verði alltaf gott að vera með bílstjóra í kringum þessi atriði.“

Að sama skapi heldur Aron ekki að fólk fari alfarið að sýna fasteignirnar sínar sjálft. „Þannig ég held að starf fasteignasalans, eins og hefur kannski eitthvað verið í umræðunni, ég held að það sé ekki í mikilli hættu,“ segir hann.

„Þetta er bara frábær búbót til að bæta þessi viðskipti enn frekar.“

Heimild: Visir.is