Home Fréttir Í fréttum Stöðvar ekki breytingar á gamla bandaríska sendiráðinu

Stöðvar ekki breytingar á gamla bandaríska sendiráðinu

74
0
Ljósmynd – Google Streeview

Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur hafnað því að stöðva framkvæmdir á gamla bandaríska sendiráðinu við Laufásveg. Nefndin hefur áfram til umfjöllunar kröfu um að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum verði fellt úr gildi.

<>

Til stendur að ráðast í miklar breytingar á gamla bandaríska sendiráðinu sem stendur við Laufásveg 21 og 23 til að hægt sé að hýsa þar um áttatíu flóttamenn. Áformin hafa mætt harðri andstöðu hjá nágrönnum. Þeir létu óánægju sína glöggt í ljós þegar framkvæmdirnar voru kynntar á fundi umhverfis-og skipulagsráðs um miðjan febrúar.

Þeir sögðust í athugasemdum óttast að fasteignir þeirra myndu lækka í verði og höfðu áhyggjur af bæði ónæði og áreiti.

Fram kom í umsögn skipulagsfulltrúa að gert væri ráð fyrir að meðaldvalartími fólks yrðu sex mánuðir og að íbúar myndu koma þangað á dagvinnutíma. Utan þess væri ekki gert ráð fyrir að umgangur vegna íbúa yrði meira en ef húsnæðið væri skilgreint sem íbúðir. Þá gætu íbúar alltaf beint skaðabótakröfu að sveitarstjórn ef þeir teldu niðurstöðu grenndarkynningar leiða til tjóns.

Eigendur Laufásvegar 19 og 21 hafa kært framkvæmdirnar til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Þeir krefjast þess að byggingarleyfi sem Reykjavíkurborg gaf út verði fellt úr gildi og að framkvæmdirnar verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála.

Í kærunni kemur fram að þeir telji framkvæmdina ólögmæta með öllu. Eignarlóðin að baki Laufásvegar 19 sé í eigu íbúa að Laufásvegi 19. Þar eru bílskúrar sem íbúar segja að hafi aldrei verið hugsaðir búsetuúrræði.

Þeir hafi hvorki samþykkt framkvæmdirnar né gefið leyfi fyrir búsetu og hafi talsverðar áhyggjur af þeim mikla umfangi og ónæði sem hljótist af því að hafa 14 til 16 manns í bílskúrunum. Ákvörðun borgarinnar eigi eftir að skerða möguleika þeirra á að selja íbúðir sínar.

Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu íbúanna um að stöðva framkvæmdirnar. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og framkvæmdirnar séu afturkræfar. Ekki væri því talin knýjandi þörf á því að stöðva framkvæmdir. Nefndin tekur fram að Reykjavíkurborg beri áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hún að hefja framkvæmdir áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir.

Heimild: Ruv.is