Keflavíkurflugvöllur á eftir að taka stakkaskiptum á næstu árum en verja á tugum milljarða í uppbygginguna.
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir mikið framkvæmdaár fram undan.
„Við erum að fara inn í stærsta framkvæmdaár í sögu félagsins og það verður mikið í gangi á flugvellinum í sumar. Við fórum í gegnum strembinn vetur. Við vorum að uppfæra farangurskerfið og farþegar hafa orðið varir við það í innritun.
Svo erum við að fara inn í þetta stóra sumar og miklar framkvæmdir. Við stefnum að því að vera komin með austurálmuna í fulla notkun í lok árs 2024 en hún er rúmlega 20 þúsund fermetrar. Þar verða móttökusvæði fyrir ferðatöskur með fjórum nýjum böndum við komuna til landsins og stærri fríhöfn.
Þá verður búið að uppfæra, skipta út eða breyta nánast öllu á veitinga- og verslunarsvæðinu. Sumir rekstraraðilar verða áfram og aðrir nýir koma inn. Þannig að í lok árs 2024 erum við að að horfa á gerbreyttan flugvöll,“ segir Guðmundur Daði um þessi áform.
Isavia áætlar að 7,8 milljónir farþega fari um völlinn í ár sem yrði þriðji mesti fjöldi frá upphafi. Árið 2017 fóru 8,8 milljónir farþega um völlinn og metárið 2018 voru farþegarnir 9,8 milljónir.
Heimild: Mbl.is