Home Fréttir Í fréttum Íslandshótel hefur hug á því að stækka Grand Hótel í Sigtúni í...

Íslandshótel hefur hug á því að stækka Grand Hótel í Sigtúni í Reykjavík

409
0

Framkvæmdir við stækkun Grand Hótels gætu hafist í sumar, en fullbyggt verður það stærsta hótel á Íslandi.

<>

Forsvarsmenn Íslandshótela hafa í nokkur ár haft hug á að stækka Grand Hótel í Sigtúni í Reykjavík. Nú virðist málið komið á hreyfingu og segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, að framkvæmdir vegna stækkunar hótelsins gætu hafist í sumar eða haust. Ef allt gangi að óskum verði verkið klárað árið 2019.

Á Grand hóteli í dag eru 311 herbergi. Davíð Torfi segir að í viðbyggingunni verði 110 til 130 herbergi og samanlagt verði hótelið því um 440 herbergi eftir stækkun. Stærsta hótel landsins í dag er Fosshótel Reykjavík en þar eru 320 herbergi. Það hótel er líka í eigu Íslandshótela. Davíð Torfi segir að útfærslan á stækkun Grand hótels sé enn í vinnslu.

“Hótelið er núna 14 hæðir og hugmyndir okkar gera ráð fyrir að viðbyggingin verði níu hæðir. Innra skipulagi hótelsins verður breytt samfara þessum framkvæmdum, þar með talið móttökunni. Við ætlum líka að fjölga fundar- og ráðstefnusölum og stækka.”

Upphaflega var hugsunin að hafa Grand hótel fimm stjörnu hótel eftir breytingarnar en fallið hefur verið frá þeim áformum.

“Við ætlum að hafa þetta fjögurra stjörnu hótel. Það er nokkur munur á fjögurra og fimm stjörnu hótelum hvað varðar þjónustustigið og þar með töluverður munur á rekstrarkostnaðinum. Það er búið að ákveða að reisa fimm stjörnu hótel við Hörpu og ætli við leyfum þeim ekki bara að taka þann pakka.”

Heimild: Vb.is